152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:25]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég hef séð hvað þetta fólk er að flýja og ég hef séð hvernig ástandið er hjá þeim á meðan það flýr og kemur hingað til lands. Þess vegna tala ég um þá reynslu sem þau hafa upplifað. Ég vil líka gera greinarmun á því hvernig við tökum á móti flóttafólki, þar sem við höfum staðið okkur mjög vel, og því hvernig við tökum á móti hælisleitendum, sér í lagi áður en þeim er veitt vernd hér á landi. Þó svo að við höfum gert frábæra hluti, t.d. fyrir hinsegin og kynsegin flóttamenn, þá veit ég að það hefur virkilega verið brotið á réttindum hælisleitenda.

Já, ég nota sterk orð. Ég nota sterk orð hér í ræðustól, hv. þingmaður, vegna þess að það virðist ekki vera hlustað þegar alþjóð er að gagnrýna hvernig farið er með fólk sem sækir um hæli hér. Það er ekki mannúðlegt þegar borið er fram frumvarp ár eftir ár, sem stjórnarandstaðan hefur sem betur fer náð að stöðva, sem gerir það að verkum að hægt verður að henda fólki út á gaddinn 30 dögum eftir að úrskurður er kveðinn upp. Það er mannréttindabrot í mínum huga. Það er það sem ég gagnrýni. Ég er ekki að gagnrýna það hvernig við meðhöndlum þau sem hafa fengið vernd heldur hvernig við meðhöndlum fólk fram að þeim tíma.