152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil fyrst koma aðeins að frumvarpinu sem hv. þingmaður nefndi hér og hefur verið lagt fram. Það frumvarp felur í sér aukna skilvirkni í þessum málaflokki, sem er af hinu góða. Ég held að við getum alveg verið sammála um það. Það er ekki af hinu góða þegar einstaklingur sækir um hæli og þarf að bíða í marga mánuði, jafnvel upp í heilt ár, þar til hann fær úrlausn sinna mála og svo kemur í einhverjum tilfellum í ljós að viðkomandi uppfyllir ekki þau lagaskilyrði sem þarf til að fá hér dvalarleyfi. Það koma hingað einstaklingar sem eru að leita sér að betri lífskjörum. Að sjálfsögðu ber maður virðingu fyrir því en það er ekki lögmæt ástæða til að fá hér dvalarleyfi. Það koma líka einstaklingar til landsins sem eru að leita sér að vinnu og það er heldur ekki lögmæt ástæða til að fá hér dvalarleyfi. Það frumvarp eitt og sér er ein leið til að auka skilvirknina þannig að við séum ekki með einstaklinga á framfæri skattgreiðenda í marga mánuði þar til niðurstaða fæst sem er þá á þann veg að viðkomandi á ekki rétt á því að fá hér hæli, bara svo að dæmi sé tekið.

Ég dreg ekki úr því sem hv. þingmaður sagði um aðstæður flóttafólks erlendis. Ég hef sjálfur starfað við þennan geira og hef séð það sjálfur. En það er nú líka einu sinni þannig, hv. þingmaður, að við getum ekki hjálpað öllum. Það eru tugir milljóna einstaklinga, flóttamanna og þeirra sem eru að leita sér að betra lífsviðurværi, um alla Evrópu en þeir sem hafa komið hingað hafa (Forseti hringir.) fengið mjög góða þjónustu og það hefur verið komið fram af hálfu dómsmálaráðuneytisins, eins ég nefndi hér áðan, að þjónustan er ein sú besta sem veitt er í Evrópu.