152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:30]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var gaman að hv. þingmaður skyldi koma að skilvirkni innan Útlendingastofnunar, stofnunar sem frá því í haust hefur vitað að hún ætti að skila umsóknum um ríkisborgararétt til Alþingis, sem hún virðist ekki einu sinni hafa getað gert á þessum stutta tíma sem síðan hefur liðið; stofnun sem lítur ekki einu sinni á umsóknir sem fara í gegnum hið almenna ferli fyrr en 18 mánuðum eftir að þær eru sendar inn. Ég held að það þurfi að laga svolítið annað en bara lögin til að laga skilvirkni í þessari stofnun. Já, fólk flýr af ýmsum ástæðum, en margir af þeim sem hingað koma koma einmitt frá stríðshrjáðum löndum; Afganistan, Sýrlandi, en við hendum þeim til baka, til Grikklands eða annarra landa þar sem þau hafa haft viðkomu á leiðinni, vegna þess að við getum það. Ekki vegna þess að við viljum sýna mannsæmandi og mannúðleg viðbrögð. Nei, við sendum þau úr landi af því að við getum það. Þetta er ekki fólkið sem hv. þingmaður var að tala um að kæmi hér í atvinnuleit eða í leit að betri aðstæðum hvað það varðar, efnahagsaðstæðum. Þetta er fólk sem kemur hingað vegna þess að það er að flýja stríð. Það er að flýja hatur í heimalandi sínu. Við berum ábyrgð á því hvað er að gerast í Afganistan og þess vegna eigum við að taka á móti fólki sem flýr þaðan en ekki að afsaka okkur í hvert sinn.