152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:32]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil nú taka undir með hv. þm. Birgi Þórarinssyni þegar hann talar um orðfærið. Mér fannst menn taka heldur stórt upp í sig, en allt í lagi með það, ég ætla ekki að gera athugasemdir við það. Hins vegar langar mig aðeins að koma að því, af því að ég kem nú að þessum málum á öðrum vettvangi, þegar hv. þingmaður talar um að ómannúðlega sé tekið á móti flóttafólki. Ég vísa því til föðurhúsanna. Ég hef starfað sem formaður flóttamannanefndar síðan 2018 og ég kannast bara ekki við að sú vinna sem þar hefur verið unnin sé á nokkurn hátt ómannúðleg. Ég óska eftir því að fá skýringar á því frá hv. þingmanni hvort hann sé að tala um störf flóttamannanefndar, ég vil að það komist algerlega á hreint ef svo er ekki en sérstaklega líka ef svo er.

Ég er algerlega sammála hv. þingmanni þegar hann talar um að nauðsynlegt sé að taka vel á móti fólki. Hv. þingmaður talaði um að hann væri á móti þeim málum sem kæmu frá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. En það mál sem við ræðum hér í þingsal í dag fjallar akkúrat um samræmda móttöku, að ekki sé gerður greinarmunur á því hvort fólk kemur hingað á eigin vegum eða í gegnum kvótann. Mig langar að heyra skoðun þingmannsins á því frumvarpi sem hér er til umræðu.