152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:37]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég þakka honum fyrir að skýra það út hvað hann var að meina í ræðu sinni hér áðan og þakka honum fyrir að góð orð í garð flóttamannanefndar. Ég er sammála honum um að hún hafi staðið sig afskaplega vel. Af því að hann ræddi hér m.a. um hinsegin flóttafólk var það hluti af okkar kvóta á sínum tíma, og hefur verið, að taka einmitt hinsegin flóttafólk til landsins og hefur gengið afskaplega vel. Ég kom hér upp áðan í andsvari við hæstv. ráðherra og var einmitt að tala um að það væri mikilvægt fyrir okkur sem ræðum þetta hér að missa ekki umræðuna of langt frá. Þess vegna kallaði ég eftir því að fá svör hv. þingmanns varðandi það frumvarp sem er hér til umræðu. Málefni innflytjenda eru risastór málaflokkur og við gætum verið hér í allan dag og rætt um hina ýmsu vinkla og hina ýmsu anga þess stóra máls sem dreifir sér úti um allt. Það sem liggur hér fyrir í dag er hvort við eigum einfaldlega að fela Fjölmenningarsetrinu þær heimildir að vinna persónuupplýsingar til að einfalda störf sveitarfélaganna og þeirra einstaklinga sem hingað koma í þessari samræmdu móttöku sem reynst hefur afskaplega vel í því reynsluverkefni sem nú er í gangi. Ég ítreka að mér finnst mikilvægt, þó að ég viti að menn hafi mismunandi skoðanir og mismunandi sýn á málefni innflytjenda heilt yfir, að við náum því að koma skoðunum okkar nokkuð skýrt fram hvað varðar það málefni sem til umræðu er á fundinum í dag.