152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[17:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Frumvarp það sem við ræðum hér felur í sér breytt hlutverk Fjölmenningarseturs og er ætlunin að gera stofnunina að tengilið milli flóttafólks, sveitarfélaga og Vinnumálastofnunar. Það á sem sagt að auka yfirsýn yfir málaflokkinn og að sama skapi á ákvarðanataka um þjónustu að verða skilvirkari. Ráðgjafarhlutverk stofnunarinnar fær auk þess meira vægi gagnvart sveitarfélögunum. Ég geri ekki athugasemdir við breytt hlutverk Fjölmenningarseturs, það er að gera ágæta hluti í dag. En í greinargerð með frumvarpinu segir:

„Með samræmdu móttökukerfi er unnið að því að tryggja jafna þjónustu óháð því hvernig einstaklingar með vernd komu til landsins …“

Og aðalmarkmið frumvarpsins er að jafna stöðu flóttafólks, hvort sem um ræðir flóttafólk sem kemur í hópum í boði stjórnvalda eða flóttafólk sem kemur á eigin vegum eða í gegnum fjölskyldusameiningu flóttafólks. Í frumvarpinu er sem sagt ekki gerður greinarmunur á kvótaflóttamönnum og hælisleitendum sem fá dvalarleyfi þegar kemur að þjónustunni.

Þetta er, frú forseti, grundvallarbreyting. Það sem vantar í frumvarpið að mínum dómi er nákvæm útlistun á því hvað þetta kemur til með að kosta. Rætt er um fjölgun stöðugilda við Fjölmenningarsetur en ekkert er talað um hvað það kostar að auka þessa þjónustu. Hæstv. ráðherra nefndi hér íslenskukennslu og fleira. Það hlýtur að kosta eitthvað að bæta þessu við og mér finnst vanta upplýsingar um það í frumvarpið. Það vantar upplýsingar um hvað það kostar að útvíkka þjónustuna. Auk þess mætti það vera skýrara í hverju þessi viðbótarþjónusta felst í heild sinni. Það er mjög mikilvægt að fá svör við því.

Eitt af mínum áhyggjuefnum varðandi frumvarpið er hvort þessi breyting, þessi aukna þjónusta við hælisleitendur með dvalarleyfi, geti haft í för með sér að umsóknum fjölgi hér á næstu misserum. Það þýðir aukinn kostnað og aukið álag, kallar á fjölgun starfsmanna hjá Útlendingastofnun o.s.frv. Það er mjög mikilvægt að fá svör við þessu. Höfum í huga að í nágrannaríkjum, eins og í Danmörku og nú síðast í Svíþjóð, er það markviss stefna að til þessara landa komi færri hælisleitendur. Ég hef sagt það hér, og sagði það í andsvari áðan, að Ísland veitir mjög góða þjónustu þeim sem koma hingað og leita sér alþjóðlegrar verndar, eina bestu þjónustuna í Evrópu. Það er ekki svo að við séum að veita lélega þjónustu til hælisleitenda, síður en svo.

Frú forseti. Ég fundaði sérstaklega með Útlendingastofnun fyrir skömmu um þetta tiltekna atriði, hvort frumvarpið feli það í sér að hingað komi fleiri umsóknir, hvort bætt þjónusta við hælisleitendur muni leiða til fjölgunar umsókna um alþjóðlega vernd. Stofnunin telur svo ekki vera og telur aðra þætti, eins og langan afgreiðslutíma umsókna, stuðla að því að umsóknum fer fjölgandi.

Mér finnst sérkennilegt að yfirfæra réttindi kvótaflóttafólks yfir á hælisleitendur. Við erum annars vegar að tala um fólk sem við samþykkjum að taka við í samráði við Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna og sjá um og hins vegar fólk sem kemur hingað á eigin vegum, sem ekki er ljóst hvort uppfyllir alþjóðleg skilyrði þess að vera flóttamenn. Ég er talsmaður þess að við veljum sjálf þá kvótaflóttamenn sem hingað koma og að það eigi að vera megininntakið í stefnu okkar þegar kemur að móttöku flóttamanna. Danir hafa sett sér það markmið að þangað komi enginn hælisleitandi en Danir munu halda áfram að taka á móti flóttamönnum. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að velja þá sem eru í mestri þörf, konur og börn og fjölskyldur sem búa í stríðshrjáðu umhverfi.

Hingað til lands koma fjölmargir sem eru að leita sér að betri lífskjörum og í leit að atvinnu. Ég ber virðingu fyrir því, ég ber virðingu fyrir þeim sem eru að leita sér að betri lífskjörum. En það er nú einu sinni þannig að það er ekki lögmæt ástæða fyrir því að fá hér hæli og oft á tíðum er það þannig að þessir einstaklingar segja ekki frá því þegar þeir koma hingað til lands, það er alþekkt. Þeir fara síðan inn í kerfi og það tekur marga mánuði að fá það staðfest að þeir eiga ekki rétt á hæli. Þessi langi afgreiðslutími laðar umsækjendur um alþjóðlega vernd hingað til lands. Það er niðurstaða Útlendingastofnunar. Á þessu þarf að taka. Á þessum langa afgreiðslutíma er það ríkissjóður, skattgreiðendur, sem borgar, húsnæði, dagpeninga, heilbrigðisþjónustu o.s.frv. Að mínu mati væri hægt að nýta fjármunina mun betur fyrir þá sem eru í raunverulegri þörf. Það er því mjög mikilvægt að meiri skilvirkni ríki í afgreiðslu umsókna og það þarf að stytta þennan afgreiðslutíma sem er allt of langur.

Við ræðum það oft hér í þingsal hvað mætti betur fara í ríkisrekstri. Við ræðum t.d. hvað mætti betur fara í heilbrigðiskerfinu sem kostar mikla peninga. En þegar minnst er á að margt mætti betur fara í hælisleitendakerfinu er eins og ekki megi breyta neinu. Hælisleitendakerfið á Íslandi er mannanna verk og það þarf að laga, það blasir við. Útlendingastofnun hefur gert spá um fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd á næstu árum og hún er á þann veg að á örfáum árum mun umsóknum fjölga verulega, þær munu tvöfaldast. Kostnaðurinn mun að sama skapi fara úr 3 milljörðum, sem hann er í dag, í 7 milljarða. Við getum ekki setið aðgerðalaus hjá þegar við fáum svona spá og þegar ljóst er hvert stefnir.

Ég styð það svo sannarlega, frú forseti, að við hjálpum þeim sem búa við ömurlegar aðstæður á stríðshrjáðum svæðum. En við getum hins vegar ekki hjálpað öllum og við vitum það vel. Við verðum að nýta þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum sem best. Það gerum við ekki með því að halda fólki uppi í marga mánuði meðan það bíður eftir úrlausn sinna mála, og svo kemur í ljós að viðkomandi á kannski ekki rétt á hæli. Þessu þarf að breyta. Við getum hjálpað sem flestum með því að eiga gott samstarf við alþjóðastofnanir sem starfa á þessu sviði. Það gagnast mun fleirum að senda fjármuni til stofnana sem eru að hjálpa einstaklingum á stríðshrjáðum svæðum. Fyrir hvern einn hælisleitanda sem hingað kemur er hægt að hjálpa allt að 12 manns sem eru í þjónustu alþjóðastofnana. Þessar tölur koma frá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna.

Íslendingar hafa tekið vel á móti kvótaflóttamönnum. Þeir koma iðulega frá stríðshrjáðum löndum og við eigum áfram að sinna þeim hópi vel og aðstoða við aðlögun hans að íslensku samfélagi. En maður spyr sig, frú forseti: Eru stjórnvöld viðbúin því að spá Útlendingastofnunar, um verulega fjölgun hælisleitenda, gangi eftir? Fyrir fáeinum árum komu um 6.000 hælisleitendur að landamærum Rússlands og Noregs á nokkrum vikum og í kjölfar þess herti Noregur sínar reglur. Það er alveg viðbúið að við gætum staðið í sömu sporum miðað við spá Útlendingastofnunar um að hér fjölgi þeim ört sem sækja um leyfi fyrir alþjóðlegri vernd. Dómsmálaráðuneytið hefur gefið það út að fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi sé orðinn einn sá mesti í Evrópu, langmestur á Norðurlöndum miðað við höfðatölu. Á Íslandi eru umsóknirnar orðnar um 24 á hverja 10.000 íbúa, á Norðurlöndum eru þær á bilinu fjórar til sex. Það sjá allir að þetta gengur ekki upp til lengdar. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að fylgja Norðurlöndunum í þessum efnum og það þarf að taka á þessum vanda. Stjórnsýslan ræður ekki við að afgreiða umsóknir innan viðunandi frests og beinn kostnaður við framfærslu hælisleitenda eykst hratt.

Það er brýnt að einfalda og hraða málsmeðferð umsókna svo að auka megi skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma og draga úr óþarfakostnaði fyrir ríkissjóð. Það er ómældur kostnaður sem fer í lögfræðinga, húsaleigu, öryggisgæslu og fleira meðan fólk bíður eftir niðurstöðu og fólk sem í mörgum tilfellum á ekki rétt á því að fá hér dvalarleyfi vegna þess að það kom á röngum forsendum. Okkur ber að aðstoða nauðstadda eftir föngum með tilliti til fámennis þjóðarinnar og okkur ber einnig að sjá til þess að kerfið sé ekki misnotað. Eins og ég nefndi hér áðan þá er margt sem má betur fara í hælisleitendakerfinu hjá okkur og við eigum að vera óhrædd við að ræða það. Við ræðum það hér hvað mætti betur fara í heilbrigðiskerfinu o.s.frv., en þingmenn eru ákaflega viðkvæmir fyrir því að ræða það að hugsanlega sé verið að misnota hælisleitendakerfið með einhverjum hætti, sé verið að leggja fram rangar upplýsingar o.s.frv. Þetta er bara eitthvað sem við verðum að skoða. Það er nú einu sinni þannig að öll kerfi eru mannanna verk og þau er hægt að laga.

Ef við horfum t.d. til Noregs var árið 2004 tekin upp svokölluð 48 tíma regla við afgreiðslu umsókna til þess einmitt að draga úr tilefnislausum umsóknum og gera kerfið skilvirkara. Þessi lönd, t.d. Noregur, auglýsa sérstaklega, á samfélagsmiðlum og á netinu, það regluverk sem gildir í þeirra löndum. Ég greip t.d. niður í eina auglýsingu sem ég sá sem hljóðar svona: Ertu að yfirgefa landið þitt í leit að betri lífskjörum? Ertu að yfirgefa landið þitt í leit að vinnu? Þetta eru ekki löglegar ástæður fyrir því að fá alþjóðlega vernd í Noregi, þér verður vísað til baka. — Hér er bara verið að upplýsa fólk um það regluverk sem gildir í þessum löndum. Þessi texti er úr auglýsingu sem norsk stjórnvöld birta og Danir hafa birt áþekkar auglýsingar. Við höfum ekki birt neinar slíkar auglýsingar. Ég hef spurst fyrir um þetta á vegum dómsmálaráðuneytisins. Ef við horfum t.d. til Svíþjóðar hefur orðið stefnubreyting þar í málefnum útlendinga. Í sænska þinginu er meiri hluti fyrir því að herða tungumálakröfur, takmarka aðflutning ættingja og gera það erfiðara að fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þessi lönd tala af reynslu sem mér finnst eðlilegt að við horfum til þegar kemur að þessum málaflokki.

Ég vil bara segja það að lokum, frú forseti, að ég er þeirrar skoðunar að við eigum að fylgja Norðurlöndunum í þessum málaflokki, þegar kemur að regluverkinu, og læra af reynslu þeirra.