152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:00]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég reyndi að benda hv. þingmanni á það að stærstur hluti fólks, samkvæmt tölum Útlendingastofnunar, kemur frá stríðshrjáðum löndum. Ég veit ekki hvaða fréttamiðlum hv. þingmaður er að fylgjast með þegar hann segir að stríðið í Sýrlandi sé búið. Það er sko langt í frá. Jú, það eru svæði þar sem sumir hafa verið að snúa til baka en það eru enn svæði þar sem mikil átök eru í gangi og fólk er að flýja átök. Fólk er að flýja átök í Afganistan. Fólk er að flýja átök í Írak. Fólk er að flýja átök í Sómalíu. Þetta er fólk sem er að flýja átök og það er ekki að misnota kerfið með því að koma hingað vegna þess að það er að flýja átök og það er ekki að reyna að ljúga til að fá vinnu hérna. Þetta eru aðdróttanir sem hv. þingmaður hefur engin gögn fyrir, önnur en þau að hann hefur heyrt eitthvað. Það eru ekki gögn sem hægt er að taka gild, alls ekki. Það er ekki hægt að vera endalaust með yfirlýsingar um að verið sé að misnota kerfið þegar fullt af fólki sem kemur hingað er að flýja stríð og átök. Og já, við erum með hærra hlutfall hælisleitenda en önnur Norðurlönd. En við höfum hærra hlutfall en önnur Norðurlönd af svo mörgu ef miðað er við höfðatölu, sennilega hærra hlutfall alþingismanna, hærra hlutfall ráðherra. Við getum endalaust talið upp, það er ekki mælikvarði. Hingað kom á síðasta ári 871 einstaklingur. Það er nú allt og sumt.