152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:05]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi í máli sínu áðan tölur og spár sem Útlendingastofnun hefur fleygt í hálfkæringi varðandi væntanlegan fjölda fólks sem leitar hingað til lands. Ég ætla ekki að væna hv. þingmann um að fleygja einhverjum tölum út í loftið þar sem tölurnar koma frá aðilum sem eiga að vita hvað þeir eru að tala um. Ég hef hins vegar ekki trú á því að þeir aðilar byggi tölur sínar og kenningar endilega á rannsóknum eða öðru, sem maður myndi kannski ætlast til. En gefum okkur það samt, gefum okkur að þetta sé rétt. Þá langar mig að taka dæmi sem hv. þingmaður nefnir varðandi það að hinn langi málsmeðferðartími hælisumsókna dragi fólk að. Það er kenning sem er uppi. Hún er ekki byggð á neinum rannsóknum eða slíku. Þetta er kannski bara eitthvað sem fólki dettur í hug að gæti verið skýringin á fjölgun umsókna og það er ákveðin fylgni á milli langs málsmeðferðartíma og síðan fjölda umsækjenda. Ég ætla að byrja á að taka fram að ég er sammála hv. þingmanni um að við eyðum allt of miklum fjármunum í meðferð hælisumsókna hér á landi, allt of miklum fjármunum, og það sem gerir það enn svívirðilegra er að hluti þeirra fjármuna er flokkaður sem þróunaraðstoð í fjárlögum. Ástæðan fyrir því að ég tel það svívirðilegt er sú að langstærstur hluti þessara fjármuna fer ekki í að hjálpa fólki í neyð heldur í að finna leiðir til að koma því úr landi.

En ég ætla aðeins að víkja að því að það dragi fólk að hve málsmeðferðartíminn er langur. Hvers vegna er það? Hvers vegna sækist fólk í að fá að vera hérna? Það er vegna þess að það hefur engar aðrar leiðir til að fá að vera í öruggu landi. Það hefur kannski fengið synjun í öllum Evrópuríkjum eða býr við aðstæður sem eru óboðlegar þar. Það er ekki hin frábæra þjónusta sem veitt er (Forseti hringir.) á meðan á meðferð umsóknar um hæli stendur, það er alveg á tæru. Ég ætla að beina þeirri spurningu til hv. þingmanns, sem tilheyrir einmitt stjórnarliðum, eins og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson nefndi hér áðan, (Forseti hringir.) hvort hann vilji ekki gera það að tillögu sinni að stytta málsmeðferðartíma niður í 48 tíma (Forseti hringir.) með því einfaldlega að leyfa fólki að vera hér á landi og fara að vinna og koma undir sig fótunum. Við gætum aldeilis skorið niður í kostnaði við meðferð hælisumsókna með því að gera það.

(Forseti (DME): Forseti minnir hv. þingmenn á að gæta að tímamörkum.)