152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:13]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mér fannst það einmitt ekki nógu skýrt hjá hæstv. ráðherra hver þessi aukna þjónusta er. Ég er sammála hv. þingmanni í því að ég held að íslenskukennsla ein og sér laði fólk ekkert sérstaklega til landsins, ég er alveg sammála hv. þingmanni um það. En það eru fleiri þættir þarna. Mér finnst einhvern veginn að það hafi aldrei verið skýrt í frumvarpinu um hvaða þjónustu er að ræða. Það væri gott að fá það fram.

Ég hjó eftir því hér í fyrra andsvari að hv. þingmaður nefndi sérstaklega spá Útlendingastofnunar um að fjölgunin yrði mikil á næstu árum, bara örfáum árum, allt að tvöföldun. Verið er að tala um að innan örfárra ára verði hér 1.200–1.500 umsækjendur. Mér fannst einhvern veginn að hv. þingmaður gerði frekar lítið úr þeirri spá. Útlendingastofnun hlýtur að geta unnið slíka spá. Hún vinnur við þessi mál. Hún afgreiðir þessar umsóknir og hlýtur að byggja spá sína á áþreifanlegum atriðum. Hver annar ætti að vinna slíka spá en Útlendingastofnun? Ég spyr bara. Ég tek þessa spá því alvarlega og mér finnst hún vera áhyggjuefni. Það er áhyggjuefni þegar kostnaðurinn mun kannski tvöfaldast á næstu þremur árum, fara úr 3 milljörðum í 7 milljarða. Þetta eru heilmiklir fjármunir.

Við verðum að átta okkur á því að við getum ekki tekið á móti öllum, því miður. Það er bara þannig. Öll ríki horfa í kostnaðinn þegar kemur að þessum málaflokki. Það er bara eðlilegt. Alveg eins og við horfum á kostnaðinn í heilbrigðiskerfinu verðum við líka að horfa á kostnaðinn í þessu kerfi. Það er bara þannig. Ég segi það enn og aftur að það er greinilegt að það er ásókn í að koma hingað vegna þess að hlutfallslega berast margfalt fleiri umsóknir til Íslands en t.d. til Noregs eða Danmerkur. Það hlýtur einhver ástæða að vera fyrir því og við eigum að fara ofan í saumana á því og skoða hvað má betur fara. Ég tel að við eigum að vera á pari við önnur Norðurlönd, Danmörku og Svíþjóð, hvað þetta varðar.