152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:41]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það eru nokkrir punktar sem ég hjó eftir og langar aðeins að ræða hérna, og líka í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur. Hér var talað áðan um ákveðinn „pull factor“ og án þess að ég ætli að hafa sterkar skoðanir á því þá er það nú þannig að þessi samræmda móttaka og þetta verkefni sem Fjölmenningarsetur er að takast á við núna á náttúrlega, eins og kom réttilega fram í máli hv. þingmanns áðan, eingöngu við um þá sem fá vernd, sem eru komnir með vernd, eru komnir í gegnum kerfið og komnir með stöðu annaðhvort flóttamanns eða með vernd, þannig að ég dreg í efa að það muni hafa stórkostleg áhrif. En ég ætla nú ekki ekki að ræða það hér.

Varðandi pörunina. Það var eiginlega ástæða þess að ég ákvað að koma hingað upp. Eins og ég skil þetta frumvarp og eins og ég skil þetta verkefni, þá er þetta akkúrat einn af stóru þáttunum í þessu, að veita Fjölmenningarsetrinu heimild til að afla upplýsinga, bæði frá sveitarfélögum og frá þessum einstaklingum til þess að betur sé hægt að finna út hverjar eru þarfirnar, bæði sveitarfélaganna og ekki síður þess fólks sem hingað er komið þannig að það geti fengið búsetu á svæðum og stöðum sem henta aðstæðum þeirra hverju sinni. Það er stóra málið í þessu, finnst mér. Það er verið að reyna að gera með þessu móti. Þess vegna er svo mikilvægt að Fjölmenningarsetrið fái þessa heimild frá Persónuvernd til að vinna upplýsingar þannig að við getum enn þá betur komið til móts við þarfir þessa fólks þannig að það fari í eins gott umhverfi og hægt er og sem henta hverjum (Forseti hringir.) einstaklingi eða hverri fjölskyldu hverju sinni.