152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:45]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég get alveg tekið undir orð hennar hvað þetta varðar. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni í þessu, við þurfum að nálgast flóttafólk eins og annað fólk; á þeirra forsendum eins mikið og hægt er. Ég skil frumvarpið og þann ásetning sem þar er á bak við þannig að þar sé verið að reyna að gera það eins og kostur er með þessu. Í þeim verkefnum sem ég hef komið nálægt í tengslum við flóttafólk þá er það alveg ljóst að þar er mikið samtal við fólkið. Menn eru að reyna að finna út úr því hvaða staðir eða sveitarfélög eða byggðarkjarnar henta hverjum fyrir sig, bara út frá fjölskyldustærð og fjölskyldugerð og öðru. Stundum þarf að horfa til heilbrigðisþjónustu, hvar hún er, ef fjölskyldurnar eru með þannig vandamál. En ég er algerlega sammála hv. þingmanni í því að það á ekki að vera að þröngva einhverju upp á fólk sem ekki vill það, það held ég að sé alveg ljóst. Ef fólk vill ekki og hefur ekki áhuga á að koma inn í svona samræmda móttöku þá hefur það val um að gera það ekki, eins og ég skil málið.

En það er líka eitt í þessu sem mig langar að koma að. Þó að það sé kannski ekki alveg beint tengt þessu máli þá ætla ég leyfa mér að nefna eitt varðandi aðstoð sem við eigum að veita, hvort sem það er kvótaflóttafólk eða fólk sem kemur hér og fær vernd: Við komum þessu fólki fyrir í sveitarfélögum mögulega úti á landi eða í Reykjavík. En það er ekki verkefnið eða markmiðið að fólk ílengist á þessum svæðum um aldur og ævi. Verkefni okkar er einfaldlega að koma fólki úr þeim hræðilegu og skelfilegu aðstæðum sem það er í, (Forseti hringir.) yfir í öruggt skjól, og veita þeim aðstoð í þetta eina ár. (Forseti hringir.) Það tekur síðan ákvörðun um það á sínum forsendum hvort það vill ílengjast á þeim stað sem við völdum eða að fara eitthvert annað, bara eins og við hin.

(Forseti (DME): Ég minni hv. þingmenn enn og aftur á að virða tímamörkin.)