152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal skila hálfri mínútu. Takk kærlega fyrir þetta svar. Það er eflaust þannig að ég er upptekinn af því umfangi sem ég hef áhyggjur af að verði raunin ef um of er opnað, ef svo má segja. En það hefur oft verið galli á umræðunni að annars vegar er sagt að það séu aðilar sem vilji halda öllu lokuðu og hleypa engum inn og hins vegar að það eigi að galopna allt, og ég held að ég geti, og margir aðrir, fært býsna góð rök fyrir því að það gæti orðið okkur um megn. En af því að hv. þingmaður hefur mikla reynslu af störfum í þessu umhverfi og ígrundaðar skoðanir spyr ég: Miðað við samfélagsgerðina sem við búum við á Íslandi hefur hv. þingmaður þá einhverja sýn á umfangið sem við myndum að jafnaði ráða við yfir lengri tíma þannig að vel væri haldið á aðlögun og mögulega þannig að þeim sem hingað koma líði vel? Ég veit að þetta er kannski ósanngjörn spurning en engu að síður held ég að það myndi hjálpa okkur til að taka umræðuna áfram ef menn áttuðu sig á því til hvaða þátta verið væri að horfa hvað breytt umfang varðar.