152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[18:59]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Það hefur verið farið um víðan völl hér í dag, heldur betur. Ég velti því fyrir mér hvort tilefni hafi verið til að ræða kerfi er varðar móttöku fólks í leit að vernd frá A til Ö þegar um er að ræða frumvarp sem félags- og vinnumarkaðsráðherra er að leggja fram varðandi samræmda móttöku einstaklinga með vernd og snýst ekki um það sem gerist áður en fólk fær vernd heldur það sem gerist eftir að fólk hefur fengið vernd, svo að því sé haldið til haga. En gott og vel, það er um að gera að nota hvert tækifæri til að ræða þetta, ræða það hversu illa búið kerfið okkar er þegar kemur að móttöku fólks í leit að vernd. En ég verð að segja að ég fagna mjög framlagningu þessa frumvarps af því að við þurfum, og það hefur verið þörf á því lengi, í mörg ár, að samræma það hvernig við tökum á móti fólki sem hefur fengið vernd á Íslandi. Það skiptir gríðarlega miklu máli að eitthvert samræmi sé þarna á milli. Af því að það hefur svolítið verið talað um VIP-meðferð, hvernig sumir komast fram fyrir röðina, þá get ég sagt hér og fullyrt að það hefur verið nokkurs konar VIP-meðferð þegar kemur að því hvernig við komum fram við fólk sem hefur verið á flótta en hefur fengið hér vernd. Til þessa dags hefur það oft verið þannig að fólk sem hefur fengið hér dvalarleyfi af mannúðarástæðum, fengið hér stöðu flóttamanna eða komið hingað með slíka stöðu, verið boðið hingað, svokallaðir kvótaflóttamenn, hefur fengið mjög ólíkar móttökur. Þessir tveir hópar hafa fengið alveg gríðarlega ólíkar móttökur. Þessir hópar hafa átt það eitt sameiginlegt að vera á flótta vegna stríðsástands eða annarra ástæðna, vegna pólitískra afskipta, vegna starfa sinna í fjölmiðlum eða annað, en annar hópurinn kemst hingað við illan leik og hinn hópurinn hefur mögulega verið í flóttamannabúðum úti í heimi og fengið þennan stimpil sem þarf frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um að teljast flóttamaður. Það er svo skrýtið að þeir sem komast við illan leik að slíkum flóttamannabúðum geta ekki gengið þar inn. Þar er líka ákveðið kerfi hvernig fólk kemst inn og hvernig það getur reynt að fá þessa stöðu úti í heimi, jafnvel í flóttamannabúðum, og teljist vera flóttamaður í skilningi flóttamannasamningsins. Það er gríðarlega mikilvægt að við tökum vandlega á móti því fólki sem við höfum tekið ákvörðun að veita vernd.

En ég hef smááhyggjur af því sem stendur í frumvarpinu um að það sé lagt fram að nýju og sé óbreytt að mestu en þó sé tekið tillit til þeirra athugasemda sem voru lagðar fram og voru tilgreindar í nefndaráliti þegar málið kom hér fram síðast, af því að það er ekki alveg þannig. Þó að það kunni að vera að merkingin sé nokkurn veginn sú sama þá færi betur á því að segja hreinlega að þetta sé sambærilegt mál en hafi þó tekið breytingum. Ég er búin að dunda mér við það hér drjúgan part dags að lúslesa þetta frumvarp með þeim frumvörpum sem við höfum áður fengið til hv. velferðarnefndar, sem ég sit ekki í lengur. Það kemur til af því að það er auðvitað ákveðið vantraust. Maður treystir ekki alveg ríkisstjórninni. Þó að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hafi góðan hug þá treystir maður því samt ekki alveg að það leynist ekki þarna inn á milli einhver bastarður sem þarf að verja. Og af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að fyrra frumvarp, sama efnis en þó aðeins öðruvísi, kom hingað inn á 150. löggjafarþingi og var unnið þar og fór í alls konar umsagnarferli, kom aftur inn á 151. löggjafarþingi en þá var það lagt fram óbreytt og það var ekki búið að fara í neina þá vinnu sem hafði verið bent á að þyrfti að fara í, m.a. af Persónuvernd, í millitíðinni. Þá þurfti að byrja upp á nýtt og Persónuvernd þurfti að spyrja: Af hverju skoðuðuð þið ekki ábendingarnar okkar frá því í fyrra o.s.frv.? Þetta er kannski hluti af þessu. En í frumvarpinu hefur núna að hluta til verið tekið tillit til þess sem hv. velferðarnefnd skilaði af sér í fyrra, a.m.k. hvað varðar persónuverndina og þær ábendingar sem komu frá Persónuvernd varðandi vinnslu persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga. Við þurfum auðvitað að ræða það hversu víðtækar persónuupplýsingar, og ég vænti þess að nefndin geri það, Fjölmenningarsetur á heimtingu á að fá í hendurnar vegna þess að það er bæði verið að heimila Fjölmenningarsetri vinnslu persónuupplýsinga en líka miðlun persónuupplýsinga. Þá er það auðvitað gríðarlega viðkvæmt og mikilvægt að við séum ekki að fara þarna yfir einhver mörk. Við höfum rætt það margsinnis hér í þingsal hvort við séum mögulega, bara með því að setja það í löggjöf, að veita allt of mörgum opinberum stofnunum allt of víðtæka heimild til miðlunar persónuupplýsinga. Í frumvarpinu segir að það þurfi að láta einstaklinginn vita ef farið er í slíka vinnslu. En við verðum auðvitað líka að ræða það, og ég vona að hv. velferðarnefnd geri það, hvað gerist ef einstaklingur segir: Ég treysti ekki stjórnvöldum til að fara vel með upplýsingarnar sem mig varðar. Þetta eru viðkvæmar persónuupplýsingar og við erum að tala um mjög ítarlegar upplýsingar. Ég vona að um þetta verði fjallað sérstaklega í nefndinni.

Aðeins varðandi það hvort ræða megi að það sé verið að misnota hælisleitendakerfið eins og var rætt um hér áðan. Ég get ekki látið hjá líða að segja að auðvitað má alveg ræða það hvort verið sé verið að misnota hælisleitendakerfið, en þá verður líka að mega ræða það hvort verið sé að misnota önnur kerfi eins og varðandi greiðslu tekjuskatts hjá stórfyrirtækjum, hvort verið sé að misnota reglur og kerfið er varðar endurgreiðslu á ferðakostnaði þingmanna eða bara hvað sem er. Endurgreiðsla á virðisaukaskatti, er verið að misnota það? Við verðum þá að þora að skoða öll kerfi. Vandinn við þetta kerfi hefur hins vegar verið sá, eins og maður hefur oft séð varðandi almannatryggingakerfið og viðhorfið þar, að gengið er út frá því að verið sé að misnota kerfið áður en farið er í að skoða hvernig við getum þjónustað þá sem þurfa á þjónustu að halda, hvernig við getum tekið á móti og aðstoðað þá sem þurfa á því að halda. Þá er byrjað á öfugum enda, byrjað á því að skoða hvernig við getum komið í veg fyrir að hlutirnir séu misnotaðir. Eins og ég hef oft sagt má gera ráð fyrir að 10% af öllum mengjum séu kannski einhvers staðar að ruglast. Ég held að það séu örugglega 10% af þingmönnum sem eru einhvers staðar að ruglast og örugglega 10% af lögmönnum, 10% af læknum og 10% af fólki á flótta. Ég held að við getum alveg gengið út frá því u.þ.b., af því að það er ekkert mengi af mannfólki sem er algerlega með allt sitt á þurru. Þetta var það sem ég vildi leggja inn í púkkið þegar við ræðum það. En ég óska hv. velferðarnefnd velfarnaðar í þessari vinnu og segi að lokum: Vonandi tekst nú að klára þetta í þetta sinn.