152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[19:19]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Það hefur verið áhugavert að sitja hér í þessari umræðu og fylgjast með ólíkum sjónarmiðum og ólíkum nálgunum. Margt af því hefur svo sem ekki komið beint að því frumvarpi sem hér er til umræðu heldur hefur umræðan farið út um víðan völl. Kannski er það bara ágætt. Það hefur kannski sýnt okkur hvaða viðhorf eru til staðar í samfélaginu. Það hefur verið mjög upplýsandi að fylgjast með umræðunni, margt hefur komið fram í henni. Óttinn við að allar aðgerðir sem beinast að því að einfalda, samræma og bæta kerfið séu einhvern veginn bein ávísun á að það verði óstjórnlegur kostnaður og hömlulaust flæði fólks inn í landið er eitthvað sem ég næ ekki alveg utan um. Fyrst við erum að fara út um víðan völl finnst mér mikilvægt að við förum bara enn lengra út á völlinn og hugsum aðeins hver staða fólks er og af hverju við erum svona mikið að skipta í flokka: Við erum tilbúin að taka á móti þessum af því að hann hefur þessar ástæður, en ekki hinum.

Ástæðurnar fyrir gríðarlegum straumi flóttafólks eru að mínu viti aðallega tvær; annars vegar stríð og hins vegar loftslagsvá og veðurbreytingar. Þótt við sem samfélag séum kannski sandkorn í hinum stóra heimi — en af því að hér er alltaf rætt um höfðatölu erum við nú samt ansi stór — þá berum við ábyrgð. Við berum líka ábyrgð á stöðunni. Á meðan við tökum ekki ábyrgð í aðra átt og segjum okkur t.d. úr NATO þá berum við ábyrgð.

En varðandi loftslagsmálin. Við erum að stefna í rétta átt. Við erum vissulega að taka ábyrgð, en við höfum ekki gert nóg. Við þurfum að gera betur. Þess vegna er frábært að í stjórnarsáttmála er öflug framtíðarsýn í loftslagsmálum. Þetta er eitt af því sem mig langaði til að nefna, að við getum ekki firrt okkur ábyrgð og farið inn í þröngar stjórnsýslulegar reglur þegar svona gríðarlegur fjöldi fólks er á flótta í heiminum, af því að mannlegar gjörðir eru svo stór partur af því.

Þá komum við að því sem hér er til umræðu, sem er þetta frumvarp sem ég fagna einlæglega. Mér líst vel á það. Hér hafa komið fram ábendingar sem er auðvitað vert að skoða. Ef ég þekki persónuverndarlögin rétt þá er ekki endilega hægt að ganga út frá því að stjórnvald geti nýtt upplýst samþykki. Til þess þarf aðrar leiðir af því að það er alltaf valdaójafnvægi. Ég held að það sé vert að velferðarnefnd spyrji krefjandi spurninga og skoði málin. En hér hefur t.d. verið talað um, svo ég komi aftur að því, að við séum að fara inn í einhverja óvissu og að allar aðgerðir verði til þess að við fáum einhverja holskeflu fólks, og það hefur svolítið verið rauði þráðurinn í umræðunni, sem sé að reyna að koma sér inn í landið á fölskum forsendum. Mér finnst það í það minnsta dapurleg umræða og ég tek undir það sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir minntist á varðandi 10%. Ég held að það sé þannig, auðvitað — og auðvitað jafnt fólk sem er í gríðarlega erfiðri aðstöðu sem óttast jafnvel um líf sitt og annarra. Kannski myndi ég segja hvað sem er ef ég væri í þeirri stöðu (Gripið fram í: Sjálfsagt.) og ekki alveg satt. En við getum ekki gengið út frá því og ætlað að byggja allt okkar regluverk út frá því að allir séu að svindla. Við eigum að horfa á málin frá öðru sjónarhorni. Við erum með alþjóðlegar skuldbindingar, við erum með einhvers konar samfélagslegan sáttmála um það að við viljum taka þátt, við viljum hjálpa, við viljum fá að styðja við fólk á flótta. Mörg sveitarfélög hafa opnað hjörtu sín og stjórnsýslu sína og umgjörð til að taka á móti. Þau mættu vera fleiri. Sú sem hér stendur óskaði eftir því meðan hún sat á sveitarstjórnarstigi að Múlaþing, sem er eitt af stærstu sveitarfélögunum, ef ég man rétt, sem ekki hafa óskað eftir því að fá samstarfssamning til að geta tekið á móti flóttafólki, gerði það og að komið yrði á fót nefnd til að finna út úr því hvernig best væri að gera það. Ég held að við langflest í samfélaginu viljum gera vel. Við viljum gera betur. Þess vegna finnst mér líka mikilvægt að fagna því þegar góð frumvörp koma fram sem snúa að því að bæta kerfið, gera það skilvirkara, gera það mannúðlegra. Og það geri ég.

Mér finnst mikilvægt, og það er nú í stefnu okkar í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, að þetta fari alltaf saman, þjónusta og mannúð. Þótt um sé að ræða aðra málaflokka; hvort við sem við horfum á mál öryrkja, eldri borgara eða innflytjenda eða flóttafólks, hverja sem við horfum á, þegar við erum að vinna með manneskjur og mannslíf þá getur þjónustan aldrei verið ferköntuð, einhvers konar stimpilklukkuvinna. Við verðum alltaf að vinna út frá mannúðinni. Ég held að partur af því sé að samræma kerfin þannig að sem flestir sitji við sama borð og að fólk fái þjónustu og að við einföldum allar aðgerðir þannig að fólk þurfi ekki að bíða endalaust, eins og við þekkjum, að fólk þurfi ekki að leita á marga staði og þurfi ekki sjálft að finna út úr því hvort það passi í þennan flokk eða hinn flokkinn, heldur að við tökum fyrr á móti fólki.

Mig langar líka út af þessari umræðu að nefna að við erum í rauninni með þessu og í þessu frumvarpi að fylgja nágrannalöndum okkar. Til dæmis hefur þetta samræmda kerfi verið í Noregi um lengri tíma, ekki þori ég að fara með hversu langan tíma, en ekki varð það raunin þar að umsóknum fjölgaði stjarnfræðilega við það að farið væri að vinna þetta með þessum hætti. Ég held að óttinn við það að kostnaðurinn verði gríðarlegur, að öll umsýsla verði allt of mikil, sé óraunhæfur.

Kannski er líka vert að nefna að lokum að við erum smáþjóð, við erum örfá á miklu landflæmi. Við náum ekki að manna atvinnulífið okkar. Ég fór víða um landið í kosningabaráttu í haust og alls staðar sem ég kom, alveg sama í hvaða geira, hvort sem það var heilbrigðisgeirinn, landbúnaðargeirinn eða sjávarútvegsgeirinn, alls staðar vantaði fólk. Sums staðar er ekki hægt að halda uppi þjónustustigi af því að það er ekki hægt að manna fyrirtæki, hvað þá að hingað komi fólk í leit að betra lífi, í leit að atvinnu. Af hverju er það svona stórkostlega hræðilegt? Ég næ því ekki alveg. En við viljum samt auðvitað öll gera vel. Það þarf að vera regluverk. Ég man ekki hvað hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson nefndi áðan um tölu fólks á flótta, hún var ótrúlega há og auðvitað vitum við öll, alveg sama í hvaða flokki við erum eða hvar við erum, að við getum ekki hjálpað öllum. En við getum gert betur. Ég held að þetta frumvarp sé skref í rétta átt. Kallað hefur verið eftir því hér í ræðustól að gerð verði heildstæð einhver stefna, að þetta sé svolítið út og suður núna. En í stjórnarsáttmálanum kemur fram að mótuð verði skýr stefna í málum útlendinga. Sú vinna er komin af stað og ég held t.d. að þetta sé hluti af því að horfa til framtíðar um heildstætt regluverk. Það að við séum að samræma í þessu frumvarpi tvo ólíka hluti sem hafa verið unnir á tveimur sviðum og afgreiddir á ólíkan hátt held ég að sé fyrsta skrefið í því að fara af stað með stefnu varðandi heildstætt kerfi.