152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[19:30]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég hjó aðeins eftir því í lok ræðunnar, sem ég var líka búin að höggva eftir í orðum annarra sem hafa talað hér í dag, sem varðaði akkúrat stefnu og heildarsýn og samræmi í stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Það var einhver þingmaður sem nefndi það hér fyrr í dag, ég er því miður búin að gleyma hver það var, hversu áberandi illa þessir tveir ráðherrar virðast vera að tala saman, annars vegar hæstv. ráðherra sem ræður málaflokknum og stýrir því hverjir fá að koma hingað og vera og síðan hæstv. ráðherra sem sér um þjónustu og aðstoð og stuðning við þetta sama fólk, þá einstaklinga sem fá að vera. Raunar var bent á það í dag að hæstv. dómsmálaráðherra eða innanríkisráðherra, ég er ekki alveg klár á því hver réttur titill er núna, sé með í undirbúningi frumvarp þar sem hann gangi í rauninni inn á valdsvið hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sem hér situr. Þannig að mig langaði að spyrja hv. þingmann, sem tilheyrir flokki sem er í ríkisstjórn, hvort hún hafi ekki áhyggjur af þessu, hvort hún trúi því og treysti að það sé nægilega mikið samtal innan ríkisstjórnarinnar og á milli ráðherra til að tryggja heildstæða mannúðlega stefnu í þessum málum.