152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[19:32]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að stjórnarsáttmálinn sé nokkuð skýr þarna. Það hefur verið í stefnu okkar að umsýslan, ég veit ekki hvernig á að orða það, í málaflokknum ætti að vera og eigi miklu meira heima undir félagsmálaráðuneyti en dómsmálaráðuneyti og það á við um fleiri málaflokka. Ég átta mig sjálf t.d. á engan hátt á því af hverju ættleiðingarmál hafa verið í þeim farvegi sem þau hafa verið, þau eiga fyrst og fremst heima með félagslegum málum. Ég held að samtalið sé gott. Ég veit ekki annað. Ég veit að þetta eru auðvitað ólíkir flokkar með ólíka sýn en ég held að það sé þannig að þegar verið er að skrifa stjórnarsáttmála þá séu gerðar málamiðlanir. En ég held að við séum að horfa fram á góða tíma í útlendingamálum og að verið sé að taka af ábyrgð á þessum málum.