152. löggjafarþing — 31. fundur,  1. feb. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[19:34]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég ætla að leyfa mér að giska á að hv. þingmaður sé ekki búinn að lesa frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra í samráðsgáttinni. Á sama tíma ætla ég að óska eftir því við hv. þingmann og samflokksfólk hennar að þau skoði þetta frumvarp vel og geri á því ríkulegar breytingar áður en það verður lagt fyrir þingið. Frumvarpið er raunar svo stuðandi að ég er ekki sannfærð um að allir þeir aðilar sem gjarnan myndu gera athugasemdir við það undir öðrum kringumstæðum hafi séð ástæðu til þess enn þá því að þar eru hlutir inni sem maður leyfir sér í rauninni að trúa og treysta að fari ekki lengra í þessu ferli. Ég ætla ekki að beina annarri spurningu til hv. þingmanns en bið hana að lesa þetta frumvarp gaumgæfilega og bið um hennar liðsinni til að tryggja að það komi betur unnið til þingsins en það er í dag.