152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Rannsóknir gefa vísbendingar um að staða innflytjenda hafi versnað til muna á síðasta ári og sé mun verri en staða innfæddra. Þetta er samt fólkið sem borið hefur uppi hagvöxt síðustu ára og auðvitað glætt íslenskt samfélag fleiri litum með reynslu sinni, þekkingu og menningu. Þetta fólk gerir líf okkar einfaldlega miklu betra. Samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar verður landsframleiðsla 13% hærri árið 2025 en hún var 2021, en fjölskyldur eiga færri börn og við fjölgum okkur hægar en áður. Við náum ekki utan um þetta án alls þessa góða fólks. Við erum að tala um tæplega 55.000 einstaklinga sem eru hérna nú og ef við bætum við þeim sem koma hingað tímabundið þá eru þetta um 70.000 manns í landinu. Innflytjendur hafa hins vegar ekki sömu rætur og við og geta mörg hver auðveldlega valið að koma ekki hingað eða valið sér búsetu annars staðar. Nú þegar verðbólgan er í hæstu hæðum og húsnæðislán taka stökk og matarkarfan verður dýrari þá erum við bara komin í býsna viðkvæma stöðu. Við þurfum nefnilega fleiri hendur, ekki síst ef þær vonir ganga eftir sem bundnar eru t.d. við uppgang ferðaþjónustunnar í sumar. Þess vegna hvet ég ríkisstjórnina til að huga sérstaklega að þessum hópi, greina stöðu hans nákvæmlega og mæta honum með viðeigandi ráðstöfunum. Auðvitað er þetta fyrst og fremst spurning um siðferði en þetta er líka efnahagslega nauðsynlegt fyrir okkur.