152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Niðurstöður Félagsdóms voru birtar 25. janúar í máli Alþýðusambands Íslands, fyrir hönd Flugfreyjufélags Íslands, gegn Samtökum atvinnulífsins, fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar og Icelandair ehf. Dómurinn var Flugfreyjufélaginu í vil. Í vörnum Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair var endurráðning eftir geðþótta réttlætt með því að tillaga okkar í Samfylkingunni um að fram kæmi í lögunum að endurráða ætti í starfsaldursröð hafi verið felld. Með því að fella tillöguna sendi ríkisstjórnin þeim fyrirtækjum sem nýttu sér stuðninginn við að segja upp fólki skilaboð um að það væri í lagi að brjóta á réttindum launafólks við endurráðningu. Það er mikilvægt að hv. stjórnarþingmenn átti sig á því hvaða afleiðingar þetta hefur haft. Þeir ættu að krefjast þess, líkt og ég geri, að ríkisstjórnin axli ábyrgð og sjá til þess að starfsfólkið sem brotið var á fái skaðabætur.

Icelandair var ekki eina fyrirtækið sem fékk stuðning til að segja upp fólki í þessu úrræði ríkisstjórnarinnar. Þau voru fleiri. Stuðningurinn sem greiddur var úr ríkissjóði nam rúmum 12 milljörðum kr. Úrræðinu var ætlað að koma í veg fyrir gjaldþrot en ekki að færa fyrirtækjum tækifæri til að brjóta á starfsfólki. Ég hef óskað eftir því að ráðherra svari spurningum, m.a. um hvernig fylgst hafi verið með því af hálfu ríkisins að fyrirtæki sem fengu þennan stuðning fari skilyrðum fyrir stuðningi samkvæmt lögunum og hvernig eftirfylgni með því sé háttað og um viðbrögð stjórnvalda við því ef endurráðningar eru ekki samkvæmt lögum.

Félagsdómur er fallinn og Flugfreyjufélagið vann sigur. En hvað gerist næst? Hvernig verður þeim starfsmönnum sem brotið var á bættur skaðinn? Hv. stjórnarþingmenn þurfa að líta í eigin barm og krefjast þess einnig að ríkisstjórnin axli ábyrgð.