152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

um fundarstjórn.

[15:39]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég verð að koma hingað upp og taka undir það sem hér er verið að segja. Ég hef ekki gert mikið af því í gegnum tíðina að vera að lesa lög. Ég hef reynt að fylgja umferðarlögum og haga mér sómasamlega. En ég ákvað að eftir umræðu í þingsal um daginn að fletta upp í lögunum um veitingu ríkisborgararéttar og þar stendur, með leyfi forseta, í 6. gr.:

„Alþingi veitir ríkisborgararétt með lögum. Áður en umsókn um ríkisborgararétt er lögð fyrir Alþingi skal Útlendingastofnun fá um hana umsögn lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda. Enn fremur skal Útlendingastofnun gefa umsögn um umsóknina.“

Þetta stendur skýrt. Síðan kemur hæstv. ráðherra bara með skæting í blaðagrein um að verið sé að búa til einhverja forréttindaröð hérna á Alþingi. En það er verið að brjóta lög, og ég spyr: Hvað er gert við lögbrjóta? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)(Gripið fram í: Nákvæmlega.)