152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

um fundarstjórn.

[15:44]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Þetta er í fjórða eða fimmta sinn sem þetta mál kemur til umræðu á Alþingi. Ég vil benda þingheimi á grein eftir hæstv. innanríkisráðherra, sem heitir „Ríkisborgararéttur og Alþingi“, sem birtist í Vísi.is 26. janúar síðastliðinn. Pínlegri grein hef ég ekki lesið á minni ævi frá ráðherra lýðveldisins. Ég verð að segja alveg eins og er. Ég skal segja ykkur af hverju. Dómsmálaráðherra landsins skilur ekki muninn á stjórnsýslumáli og máli fyrir Alþingi Íslendinga. Hann skilur ekki þennan mun. Hann skilur ekki mun á undirbúningi máls fyrir stjórnvaldsákvörðun hjá Útlendingastofnun og undirbúningi máls fyrir lagasetningu á Alþingi Íslendinga. Fólki er veittur ríkisborgararéttur hjá Alþingi Íslendinga með lögum. Útlendingastofnun á að undirbúa þau lög með því að veita umsögn um umsóknir sem umsækjendur senda til Alþingis og greiða töluvert fé fyrir. Þessu er hæstv. innanríkisráðherra (Forseti hringir.) að grauta saman í grein í Vísi sem ég hvet alla til að lesa, hann talar m.a. um VIP-meðferð fyrir Alþingi. Og af því að það gengur svo illa, hraðinn á málinu hjá Útlendingastofnun er ekki nógu mikill, þá þarf það að bitna á þessari stofnun hér.