152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

um fundarstjórn.

[15:48]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Forseti. Ég verð að taka undir með þeirri orðræðu sem hér er. Mér þykir ákaflega leitt að verið sé að blanda saman tveimur umræðum, annars vegar að ástandið sé óboðlegt í Útlendingastofnun vegna vinnuálags, að skipulag vinnunnar gangi ekki upp. Ég held að öll í nefndinni skilji það, beri virðingu fyrir því og séu tilbúin að hefja þá vinnu að breyta fyrirkomulaginu. Við getum hins vegar ekki gert því fólki sem búið var að sækja um og greiða fyrir samkvæmt tilmælum á vef stofnunarinnar, það að skipta um hest í miðri á. Við verðum að afgreiða þessar umsóknir. Það er bara einfalt mál. Við erum að kalla eftir gögnum sem lögum samkvæmt ber að veita okkur. Eins og hér hefur komið fram þá er ekkert flækjustig. Það þarf bara að klára þetta mál. Á meðan bíður fólkið í óvissu.