152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögum fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar. Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda vegna efnahagslegra afleiðinga heimsfaraldurs kórónuveiru. Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að greiða beina styrki til veitingahúsa, gististaða og skemmtistaða. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölda gesta frá ýmsum aðilum. Rekstraraðilar sem hafa verið í samtali við nefndina hafa allir sem einn lýst yfir miklum áhyggjum af rekstri sínum og mikilli óvissu. Við umfjöllun nefndarinnar voru nokkur atriði sem nefndin staldraði við og taldi að þyrfti að árétta eða lagfæra.

Eitt af álitamálunum sneri að bráðabirgðarekstrarleyfi sem einhverjir rekstraraðilar starfa eftir er hófu starfsemi sína fyrir 1. desember árið 2021. Nefndin óskaði eftir afstöðu ráðuneytisins um framangreint álitaefni og kom fram að ráðuneytið telji að líta megi svo á að rekstraraðili sé með rekstrarleyfi þótt það sé til bráðabirgða.

Meiri hlutinn tekur undir afstöðu ráðuneytisins um framangreint og beinir því til Skattsins að leggja framangreinda túlkun til grundvallar.

Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið um að það kynni að gefa betri mynd af styrkþörf minni rekstraraðila með færri stöðugildi að miða hámark yfir tiltekið hlutfall af föstum kostnaði. Nefndin óskaði eftir því að ráðuneytið léti nefndinni í té afstöðu sína til tillögu þessa efnis. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að slík nálgun fæli í sér talsverða breytingu frá framkvæmd tekjufalls- og viðspyrnustyrkja sem gæti flækt framkvæmdina og myndi að líkindum seinka því að úrræðið kæmist til framkvæmda. Að auki kemur fram í umsögn Skattsins að óhjákvæmilega muni nokkur tími líða frá samþykkt frumvarpsins og þar til rekstraraðilar geti sótt um styrki. Af framangreindu leiðir að umfangsmiklar breytingar á úrræðinu sem reynsla hefur fengist af í framkvæmd muni að líkindum seinka því enn frekar að það komist til framkvæmda.

Meiri hlutinn telur þann takmarkaða ábata sem fengist af slíkri breytingu ekki réttlæta aukið flækjustig úrræðisins og mögulegar tafir á því að það komist til framkvæmda.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar gerir eftirfarandi breytingartillögur við frumvarpið. Í fyrstu vil ég nefna afmörkun hugtaksins „veitingastaður“ en í frumvarpinu er kveðið á um að styrkir nái til rekstraraðila sem starfrækja veitingastaði í flokki II og III. Í framsöguræðu við 1. umr. um frumvarpið kom fram að heppilegt væri að rýmka gildissvið frumvarpsins þannig að skilgreining á veitingastöðum yrði látin ná til veitingarekstrar á vegum gististaða með vínveitingaleyfi eða nánar tiltekið veitingastaða í flokki IV. Þetta var sömuleiðis gert í frumvarpi um frestun greiðslu opinberra gjalda.

Meiri hlutinn tekur undir framangreinda breytingu og gerir hana að sinni.

Samkvæmt frumvarpinu á rekstraraðili rétt á styrk úr ríkissjóði vegna hvers almanaksmánaðar frá desember 2021 og til með mars 2022. Í umsögnum kom fram að sóttvarnaaðgerðir hefðu verið hertar í byrjun nóvember 2021 og ættu styrkirnir því að ná til þess mánaðar. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að reglugerð um takmörkun á samkomum tók gildi um miðjan nóvember 2021.

Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til breytingu þess efnis að hægt verði að sækja um styrki vegna nóvember 2021.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að við mat á tekjufalli veitingastaða sem hófu starfsemi eftir upphaf heimsfaraldurs kórónuveiru feli ákvæðið í sér að tekjufallið taki almennt mið af tímabili þegar veitingastaðir höfðu takmarkaðar tekjur vegna sóttvarnaráðstafana. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að ákvæðið útiloki að mati ráðuneytisins ekki að rekstraraðili sem hóf rekstur veitingastaðar eftir upphaf viðkomandi almanaksmánaðar árið 2019 miði tekjufallið við afmarkað tímabil frá þeim tíma sem hann fékk rekstrarleyfi í stað tímabilsins alls ef hann getur fært rök fyrir því að það gefi betri mynd af tekjum hans alla jafna. Sanngirnisrök geti mælt með því að gera það að sjálfgefnum möguleika í stað þess að gera rekstraraðila að sýna fram á að það tímabil gefi betri mynd af tekjufalli hans en tekjur frá upphafi rekstrar.

Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið og leggur til breytingu þess efnis að í tilviki rekstraraðila sem hafa fengið rekstrarleyfi vegna veitingastaðar eftir upphaf sama almanaksmánaðar og umsögn varðar árið 2019 skuli miðað við meðaltekjur hans á veitingastaðnum á jafn mörgum dögum og eru í þeim almanaksmánuði sem umsögn varðar á tímabilinu frá 1. september 2021 til 30. nóvember 2021 eða frá þeim degi sem hann fékk rekstrarleyfi til 30. nóvember 2021.

Við framlagningu frumvarpsins var ekki gert ráð fyrir framlengingu á umsóknarfresti lokunarstyrkja samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila. Nefndin hefur til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning eða framhald lokunarstyrkja auk þess sem ráðherra hefur boðað framhald viðspyrnustyrkja. Meiri hlutinn bendir á að ekki hefur verið gert ráð fyrir því að rekstraraðili geti notið fullra lokunarstyrkja, viðspyrnustyrkja og styrkja samkvæmt frumvarpi þessu vegna sama tímabils og er því t.d. lagt til í áðurgreindu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila að hafi rekstraraðila verið ákvarðaður styrkur samkvæmt frumvarpi þessu fyrir sama tímabil og lokunartímabil nær til dragist sá styrkur frá lokunarstyrk. Að óbreyttu yrðu því greiddir tvenns konar styrkir vegna lokunartímabils ef sótt er um lokunarstyrk á undan styrk samkvæmt frumvarpinu.

Meiri hlutinn leggur því til breytingu þess efnis að hafi rekstraraðila verið ákvarðaður viðspyrnustyrkur samkvæmt lögum um viðspyrnustyrk vegna þess almanaksmánaðar sem umsókn varðar eða lokunarstyrkur samkvæmt lögum um fjárstuðning dragist hann frá styrk samkvæmt lögum þessum.

Með vísan til framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hafa verið taldar upp.

Að þessu nefndaráliti standa Guðrún Hafsteinsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jóhann Páll Jóhannsson og Orri Páll Jóhannsson.