152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:16]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðrúnu Hafsteinsdóttur framsöguna fyrir nefndarálitinu. Auðvitað væri skynsamlegast að stjórnvöld hættu þessum takmarkandi aðgerðum gagnvart veitingastöðum en það þýðir víst lítið að fást um það við hv. þingmann í augnablikinu. Það er oft gagnrýnd hugtakanotkun í þessum sal. Menn grauta hlutum saman og hér er nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um styrki til rekstraraðila. Mig langar að spyrja hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar hvort hér sé ekki raunverulega verið að fjalla um bætur, því að bætur og styrkir eru sitthvor hluturinn. Þessi staða er auðvitað til komin vegna aðgerða stjórnvalda. Meira að segja fjármálaráðherra sem leggur fram þetta mál sem hér er til umfjöllunar hefur lýst þeirri afgerandi skoðun að lagaforsendur þessara aðgerða séu, ef ekki brostnar þá við það að bresta. Mig langar til að fá fram sjónarmið hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar og framsögumanns nefndarinnar varðandi nefndarálit hvað þetta varðar, því að allt sem hér er verið að taka á er til komið vegna ákvarðana þessara sömu stjórnvalda sem nú koma og segjast vera að veita þessum sömu aðilum styrki. Eru þetta ekki bara bætur?