152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. formanni svarið. Auðvitað vilja fæstir vera bótaþegar en þegar fyrirtæki eru sett í þá stöðu að mega ekki selja þeim vöru sem vilja eiga við þau viðskipti, fá ekki að nota eignir sínar og tíma til að skapa tekjur, þá er nú snúið við að eiga í þeim efnum.

Til viðbótar við þetta tiltekna atriði langar mig að spyrja um ákveðinn þátt þessara mála sem snýr að fyrirtækjum sem hafa verið í vandræðum, verið í vanskilum með opinber gjöld eða ekki náð að standa við fyrri samninga sem gerðir hafa verið við Skattinn. Eins og hv. þingmaður kom inn á þá hafa nefndarmenn væntanlega flestir heyrt í rekstraraðilum og það hef ég sömuleiðis gert og m.a. hef ég heyrt lýst til þess að gera snúnum samskiptum við Skattinn á grundvelli þess að annaðhvort hafi fyrri plön ekki gengið upp að fullu eða það er vísað til vanskila og því eru fyrirtæki ekki talin falla undir þessar sjálfvirku leiðir. Var skoðað að einhverju marki í nefndinni hversu mörg þau félög væru sem falla undir þessar lausnir sem njóta þeirra ekki, í öllu falli ekki með sjálfvirkum hætti ef svo má segja, vegna vanskila sem eru til komin innan þess tímabils sem faraldurinn nær yfir? Það er auðvitað þannig að rekstraraðilar og fyrirtækin eru eins fjölbreytt og þau eru mörg og það geta verið fjölbreyttar skýringar á því hvers vegna fyrirtæki lenda í tímabundnum vanskilum. En spurningin er þessi: Var þetta skoðað? Hversu mörg eru þau fyrirtæki sem hafa hingað til verið að falla á þessu sjálfvirka samþykki vegna vanskila á opinberum gjöldum?