152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Forseti. Það er alveg ljóst að þeir aðilar sem hafa þurft að fresta greiðslu gjalda teljast ekki í vanskilum. Það er forsenda fyrir úrræðum að fyrirtæki séu í skilum en þeir sem hafa þurft að fresta gjöldum og hafa samið um það geta sótt um þessi úrræði. Nefndin skoðaði ekki sérstaklega hversu margir aðilar hafa fallið þarna á milli en ég tel að þeir séu mjög fáir. Það hefur alla vega verið skoðað að úrræðið hefur náð að grípa yfirgnæfandi meiri hluta umsókna þeirra sem hafa sótt í það. Það er líka mjög ánægjulegt að í öllum þeim samtölum sem við höfum átt er ákveðin ánægja, eins mikið og ég get notað það orð, hjá fólki, rekstraraðilum, með þau úrræði sem hefur verið gripið til fram til þessa og langflestir orðað það svo að ef þessara styrkja hefði ekki notið við værum við búin að sjá hér fjöldagjaldþrot fyrirtækja í þessari grein.