152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:24]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég stenst ekki mátið eftir þessa umræðu hérna. Það má kannski taka fram að mér finnst engin skömm að því fyrir einstaklinga að þiggja bætur frá ríkinu og heldur engin skömm fyrir fyrirtæki að þiggja styrk eða bætur eða hvað við köllum það frá ríkinu. Einkageirinn er og verður háður ríkisvaldinu um alveg ofboðslega margt, t.d. um vernd eignarréttarins, um uppbyggingu innviða, um gott samkeppnis- og reglugerðarumhverfi, um menntun starfsfólks. Þetta er allt svolítið búið til af ríkinu, þannig að við erum kannski öll bótaþegar hvers annars, ef svo má segja. Þessi faraldur hefur auðvitað dregið ofboðslega vel fram hvað atvinnulífið er háð hinu opinbera. Eins og hv. þingmaður sagði áðan þá hefðum við náttúrlega séð fram á fjöldagjaldþrot og alveg ofboðslega efnahagslega eyðileggingu með hörmulegum afleiðingum ef ríkið hefði ekki stigið mjög fast inn víðast hvar í hinum vestræna heimi til að sporna gegn því.

En af því að maður er kominn hérna upp í pontu þá ætla ég að spyrja að nokkru. Í 7. gr. frumvarpsins kemur fram að Skatturinn skuli afgreiða umsókn svo fljótt sem verða megi og ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að honum berst fullnægjandi umsókn. Ég vildi bara rétt fá að spyrja hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar hvort hún sé ekki sammála mér um að nú velti mjög mikið á því og sé mjög mikilvægt að ráðuneytið og Skatturinn geri allt sem hægt er til að afgreiða og koma upp þessu umsóknarferli sem allra fyrst og afgreiða þessa styrki miklu hraðar en minnst er á í þessu ákvæði, (Forseti hringir.) að þegar það er talað um tvo mánuði sé það bara fyrir einhver alger undantekningartilvik. (Forseti hringir.) Er hún ekki sammála mér um þetta?