152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:28]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka skýr svör og gott að við erum sammála um þennan þátt. Ég held að það sé mjög mikilvægt, sérstaklega í ljósi þess hversu seint þetta frumvarp kom fram, að það komi fram, eins og gerðist rétt í þessu, mjög skýr skilaboð frá löggjafanum um að framkvæmdarvaldið eigi að leita allra leiða til að afgreiða umsóknir hratt og örugglega.

Annað svolítið svipað atriði sem varðar framkvæmdina sem mig langaði til að vekja máls á. Í 4. gr. laganna um skilyrði fyrir styrkveitingu kemur sérstaklega fram um tímabil til viðmiðunar að við sérstakar aðstæður megi nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans heldur en viðmiðunartímabil samkvæmt 1. og 2. málslið. Ég vil spyrja hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar hvort hún sé ekki sammála mér um að þetta sé málsgrein sem beri að túlka frekar vítt í framkvæmdinni, að það sé mjög mikilvægt að hugað sé að sértækum aðstæðum og svoleiðis við framkvæmd þessara laga.