152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram þá gerði nefndin breytingar á þessu viðmiðunartímabili vegna þess að við töldum líka nauðsynlegt að bregðast við vanda rekstraraðila sem eru nýir, með nýjan rekstur, og að tekjufall þeirra fyrirtækja myndi sýna nokkuð raunhæfa mynd. Þess vegna var horft til þess að á haustmánuðum á síðasta ári bjuggu þessir rekstraraðilar við miklar takmarkanir. Sömuleiðis er búið að setja tekjufallið niður í 20% sem ég tel að skipti líka miklu máli. Svigrúm er ekki hægt að sýna meira en er hér í lögunum. Ég tel að nefndin hafi reynt eftir öllum mætti að bregðast við þeim umsögnum sem komu fram hjá rekstraraðilum um að sýna meiri sveigjanleika með því að færa til þetta viðmiðunartímabil. Ég held að það sé mjög af hinu góða.