152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni kærlega fyrir ræðuna. Mig langar að taka fram að því miður er það svo að við náum aldrei að grípa alla. Eins mikið og við viljum leggja okkur fram í nefndinni þá viljum við fyrst og síðast gæta jafnræðis og við viljum vera með almenn úrræði sem flestir geta notað og leitað í. En því miður er það svo að það verða alltaf einhverjir sem falla þarna á milli. Ég vona svo sannarlega, hv. þm. Jóhann Páll, að við förum að sjá fyrir endann á þessum hamförum og að við þurfum ekki að vera að afgreiða mikið af svona frumvörpum hér í þinginu, því að réttilega, eins og hv. þingmaður sagði, viljum við að atvinnulífið blómstri vel og geri það vitaskuld í samspili við hið opinbera.

Mig langar örlítið að fá að nefna hér, sem ég tók fram í nefndarálitinu, að í nefndinni komu fram áhyggjur af því að þessir styrkir væru miðaðir við stöðugildi en ekki fastan kostnað. Það var heilmikið rætt og ráðuneytið kom með afstöðu sína til þess. Þar vó það einna þyngst að ef við færum að flækja úrræðið meira myndi það kalla á seinkun á afgreiðslu, sem við viljum koma í veg fyrir.

Að lokum vil ég fá að þakka nefndinni sérstaklega fyrir mjög vel unnið starf og góða einingu í því að koma þessum málum áfram.

(Forseti (OH): Forseti minnir hv. þingmann á að nefna hv. þingmenn fullu nafni.)