152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:50]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Hér er talað um að stuðningsaðgerðir eigi að vera almennar en ekki sé hægt að grípa alla. Já, ég held að það sé mjög mikilvægt að feta ákveðinn meðalveg milli hins almenna og hins sértæka í þessu öllu saman. Þetta efnahagsástand og þetta veiruástand bitnar með mjög ólíkum hætti á ákveðnum atvinnugreinum, á fólki og fyrirtækjum, út frá alls konar þáttum. Sumar greinar standa ofboðslega vel, aðrar standa alveg hryllilega, þannig að ég held að í vissum skilningi sé mjög mikilvægt að stuðningur sé þokkalega sértækur, að við beinum sjónum sérstaklega að þeim geirum sem eru í miklum vanda en pössum okkur að vera ekki að spreða of miklum peningum með galopnum og almennum aðgerðum. Það er líka mikilvægt hagstjórnarlega séð. Við sjáum hvernig verðbólgan leikur okkur grátt þessa dagana og horfur eru á vaxtahækkunum. Það er eitthvað sem ég held að við þurfum að hafa miklar áhyggjur af og bregðast við.

Hvað var það fleira? Jú, stöðugildi og fastur kostnaður. Mér hefur þótt góður bragur á því almennt, í flestum þessum efnahagsúrræðum stjórnvalda, að horfa sérstaklega til stöðugilda þegar stuðningur er veittur af því að tilgangur þessara aðgerða er að verja störf. Við erum ekki bara að verja kennitölur, við erum fyrst og fremst að verja störf og ráðningarsambönd. En ég held einmitt að við þurfum bara að hafa opinn hug fyrir því hvernig best sé að haga þessu öllu saman.

Annars tek ég undir margt af því sem hér kom fram.