152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:55]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Staðir sem þurfa að loka fá náttúrlega lokunarstyrki. Með þessari aðferð er í raun verið að greiða 90% af rekstrarkostnaði. En svo er þetta hámark, bæði sem miðast við fjölda stöðugilda og á hvert fyrirtæki fyrir sig. Ég hefði þá kannski haldið að það væri allt eins sniðugt að hækka frekar þetta hámark en að fara að taka upp einhver ný viðmið um fastan kostnað. Þarna komum við náttúrlega inn á flækjustigið, sem talað var um hér áðan, að í hvert sinn sem upp koma hugmyndir um að gera þetta aðeins öðruvísi þá erum við vöruð við því, að þá taki þetta kannski ekki þrjár vikur að fara í gegn heldur þrjá mánuði, þannig að það þarf svolítið að vega og meta fórnarkostnaðinn, hvort hann sé þess virði. En nei, svona í fljótu bragði finnst mér miklu skynsamlegra að hækka þá frekar þessi þök af því að frumvarpið eins og það er núna gerir einmitt ráð fyrir því að greiða 90% af rekstrarkostnaði.