152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:58]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það fari einmitt vel á því að skoða þetta allt saman nú þegar við tökum viðspyrnustyrkina til skoðunar. (Gripið fram í.) Já, líka þá náttúrlega, það þarf að framlengja það. Ég hefði haldið að það tæki í nær öllum tilvikum á þeim stöðum sem er gert að loka og við þurfum að passa að frumvarpið sé þannig úr garði gert. En annars, eins og ég nefndi í ræðu minni, hefði ég gjarnan viljað sjá eitthvert meira samspil, þá kannski við fyrri úrræði, t.d. hlutabótaleiðina. Reyndar snýst það þá um launakostnað en hv. þingmaður er að tala um annan kostnað. Mér hefur sýnst þessi aðferðafræði vera ágæt. Mér finnst fyndið að vera kominn í hlutverk talsmanns ríkisstjórnarinnar en það verður þá bara svo að vera. Mér finnst sú aðferðafræði sem lagt er upp með hér einhvern veginn virka skynsamlegri en að vera sérstaklega að teygja sig eftir hverju einasta fyrirtæki sem er kannski ekki með neina starfsmenn í vinnu hjá sér.