152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[16:59]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir skemmtilegar umræður hér. Mig langaði að spyrja hv. þingmann um þær tafir sem orðið hafa á því að meðhöndla þessa styrki. Rétt eins og hv. þingmaður benti á geta jafnvel liðið margar vikur áður en hægt verður að borga út þessa styrki. Það er nú þannig með flesta af þessum rekstraraðilum að þeir eru frekari litlir og skuldastaða þeirra er mjög slæm, svo að vægt sé til orða tekið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvar hefðum við þurft að bæta þetta? Var það þegar ráðuneytið lagði frumvarpið fram? Var það allt of seint? Fór Alþingi ekki nógu hratt með þetta? Var þetta ekki sett í nógu mikinn forgang? Við erum enn að taka á viðspyrnustyrkjum og lokunarstyrkjum og alls konar hlutum. Eigum við ekki að vera löngu búin að þessu? Það er fyrsta spurning mín til hv. þingmanns.