152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[17:00]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að það frumvarp sem við ræðum hér í dag kom mánuði of seint fram. Ég vitnaði áðan í fréttaviðtal við hæstv. fjármálaráðherra, frá 10. desember sl., þar sem hann sagði sjálfur að hafa þyrfti mjög hraðar hendur. Ég hefði auðvitað viljað sjá þetta frumvarp koma fram fyrir jól. Þá hefði kannski verið hægt að afgreiða það hratt og örugglega um leið og þing kom saman eftir jól eða jafnvel fyrr. Kannski hefði mátt setja meira púður í einmitt þetta. Ég veit að margir rekstraraðilar í þessum geira fengu hálfgert áfall þegar Alþingi fór heim í jólafrí án þess að fyrir lægi nein útfærsla á styrkjum til þessarar atvinnugreinar. Það kom að vísu fjárheimild upp á 1 milljarð. Það er ekki nóg. Það er ekki nóg að samþykkja bara fjárheimild, það verður að setja þetta af stað.

Hitt er náttúrlega það sem við fórum yfir hér áðan, að Skatturinn sinnir lögbundnum verkefnum í febrúar sem snúa að gagnaskilum og undirbúningi fyrir álagningu opinberra gjalda, og svo auðvitað ýmsum öðrum úrræðum sem samþykkt voru fyrir jól, eins og Allir vinna. Fjármálaráðuneytið varaði sérstaklega við því að það gæti tafið starfsemi Skattsins þannig að það var að einhverju leyti fyrirséð. Þetta er það sem mér dettur helst í hug. Eftir tvö ár af þessum faraldri þurfum við auðvitað að vera tilbúin að bregðast skjótt við á efnahagshliðinni þegar sóttvarnatakmarkanir eru kynntar. Það er eitthvað sem maður hefði viljað sjá strax í desember.