152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[17:04]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það eru stóru og stöndugu fyrirtækin sem hafa greiðastan aðgang að lánsfjármagni. Þess vegna skiptir það ofboðslega miklu máli í öllum svona stuðningsúrræðum stjórnvalda að beina þeim sérstaklega að smærri aðilum. Ein leið til þess er í raun að niðurgreiða rekstrarkostnað og beita svo einhvers konar hámarki, hámarksfjárhæðum. Það er leið sem ríkisstjórnin fór ekki þegar farið var í alveg fordæmalausar aðgerðir, held ég. Ég veit ekki til að það hafi verið gert nokkurs staðar annars staðar í heiminum að fyrirtækjum hafi verið greiddir styrkir fyrir að segja upp starfsfólki í nafni þess að verja ráðningarsamband. Ég man ekki einu sinni hver réttlætingin var, þetta var algjörlega út úr kú. En ég held að það sé mjög mikilvægt að huga að þessu núna þegar við tökum viðspyrnustyrkina fyrir, að stuðningi sé beint sérstaklega að litlu og meðalstóru fyrirtækjunum sem eiga ekki jafn greiðan aðgang að lánsfjármagni og þau stóru.