152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[17:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar við þessa 2. umr. um mál er varðar styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma að koma inn á nokkur atriði og reyna kannski fyrst að horfa á málið úr dálítilli fjarlægð. Sú staða sem hér er verið að bregðast við kemur auðvitað ekki til úr engu. Hún er komin til vegna aðgerða stjórnvalda síðastliðin tvö ár. Aðgerðir stjórnvalda síðustu vikur munu kannski sérstaklega koma til gagnrýnnar skoðunar síðar og þá sérstaklega þær takmarkanir sem eru samhangandi þeim sem við erum núna stödd í.

Þeir aðilar sem falla undir þetta mál, rekstraraðilar veitingastaða, eru búnir að vera reglulega í þeirri stöðu undanfarin tvö ár að mega beinlínis ekki selja þeim þjónustu sem vilja kaupa hana af þeim, vegna ákvarðana stjórnvalda. Það er staðan sem við eigum við núna. Ég get sagt fyrir mig að mér er algerlega fyrirmunað að skilja að við, eða stjórnvöld öllu heldur, heilbrigðisráðherra, séum núna í febrúar enn að velta vöngum yfir því með hvaða hætti afléttingu verði háttað. Auðvitað á að hætta þessu hið snarasta. Það eru engar forsendur til annars og ekki þörf á neinu öðru. Eins og ég kom inn á í andsvari mínu við hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar áðan og framsögumann nefndarálits meiri hluta þá er auðvitað ekki um neitt annað að ræða en bætur til þeirra aðila sem eru undirorpnir þeim reglum sem hér eru við lýði. En þær bætur komast hvergi nærri því að bæta þann skaða sem verið er að valda þessum fyrirtækjum.

Hér var kynnt niðurstaða um þróun eigin fjár ferðaþjónustufyrirtækja í byrjun ársins, þróun eigin fjár árið 2020. Eigið fé ferðaþjónustufyrirtækja lækkaði um 35 milljarða á árinu 2020 — 35 milljarða. Það er ekki komin niðurstaða um þróun síðasta árs, 2021, en staðan verður eflaust með sambærilegum hætti. Ef við gefum okkur að sama þróun hafi verið það ár þá er þetta 70 milljarða lækkun á eigin fé ferðaþjónustufyrirtækja. Það er ótrúlegur skaði sem þessar aðgerðir hafa valdið og því ótrúlegra er auðvitað að fylgjast með því að ekki sé reynt að stíga til baka eins hratt og nokkur er kostur þegar sú staða er uppi sem við okkur blasir núna hvað veiruna varðar, þetta ómíkron-afbrigði og það hversu litlum skaða það virðist valda.

Við þingmenn fengum síðast í dag bréf frá samstöðuhópi einyrkja og lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu. Það er hópur sem hefur farið alveg sérstaklega illa út úr bæði þeim takmörkunum sem stjórnvöld hafa uppálagt og þeim lausnum sem boðnar hafa verið. Staðan er sennilega hvergi hlutfallslega verri en hjá þessum litlu, frjóu, dínamísku fjölskyldufyrirtækjum landið um kring þar sem fótunum hefur algerlega verið kippt undan rekstri þeirra og meðhöndlunin á einyrkjum hefur síðan auðvitað verið kapítuli út af fyrir sig þau tvö ár sem þetta ástand hefur verið viðvarandi.

Hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson kom áðan inn á samspil hins opinbera og einkageirans hvað verðmætasköpun varðar. Auðvitað er það samspil til staðar og mikilvægt, en fremst í röðinni, ef svo má segja, hvað varðar að halda kerfinu öllu gangandi er að verðmætasköpun fái að eiga sér stað. Verðmætasköpunin sem stendur undir rekstri hins opinbera kerfis og samfélagsins alls og velferðarkerfis okkar á sér stað í einkageiranum. Það er grunnurinn. Þess vegna er svo agalegt að horfa t.d. á þróun ferðaþjónustufyrirtækja og þróun eigin fjár þar, sem er auðvitað býsna góður mælikvarði á heilbrigðisgeirann, þegar það fer niður um 35 milljarða á árinu 2020 og örugglega ekki minna á árinu 2021.

En ef við snúum okkur aftur að veitingamönnum þá hef ég sagt það hér áður að mér þykir það eiginlega galnara eftir því sem ég hugsa það oftar að veitingamenn séu settir í þá stöðu að bera kostnaðinn af slæmri stöðu Landspítala – háskólasjúkrahúss. Hvað hefur þessi geiri gert til að verðskulda að þurfa að bera hallann af því að staðan sé með þeim hætti sem hún er, að mat sérfræðinga sé að Landspítalinn ráði ekki við verkefnið sem fyrir honum hefur legið undanfarnar vikur og mánuði og þess vegna séu þessar takmarkanir nauðsynlegar? Hvað í veröldinni fær menn til að meta sem svo að það sé eðlilegt að veitingamenn landsins beri kostnaðinn af þessu með miklum takmörkunum á fjölda gesta og opnunartíma? Mér hefur þótt þetta æ undarlegra eftir því sem ég hugsa meira um þetta og undarlegast af öllu er að þetta sé keyrt áfram undir styrkri stjórn Sjálfstæðisflokksins.

Eins og komið hefur fram í fyrri ræðum förum við næst í að ræða viðspyrnu- og lokunarstyrki, sem eru frumvörp sem koma væntanlega frá hæstv. fjármálaráðherra á næstu dögum og verða meira af því sama, eins og gengur í þessum efnum. Að halda fyrirtækjum gangandi í gegnum erfiðleika í rekstri snýst að miklu leyti um það að sjá til lands, eiga von um að ná að bjarga sér. Á meðan þeirri von er kippt til baka reglulega með auknum takmörkunum og skerðingum á frelsi aðila til að reka fyrirtæki sín lýjast menn auðvitað býsna hratt. Það er það sem ég hef miklar áhyggjur af núna og hefur í rauninni komið fram í viðtölum við ýmsa ferðaþjónustuaðila á síðustu dögum. Menn lýsa raunverulegum áhyggjum af því að þeir nái ekki til lands, þetta sé orðið of erfitt og lýjandi, súrefnið sé of lítið og ófyrirsjáanlegt og síðan séu ákvarðanir stjórnvalda til þess fallnar að kippa þeirri von af mönnum sem þó var til staðar.

Virðulegur forseti. Ég ætla að láta þetta duga í þessari umræðu um þetta mál. Ég hef áhyggjur af því, eins og ég segi, að við horfum nú inn í tímabil þar sem fyrst og fremst verði um meira af því sama að ræða frá ríkisstjórninni, tímabil viðspyrnustyrkja og lokunarstyrkja þar sem meginorkan virðist fara í það að hafa nógu marga fyrirvara og nógu nákvæma þannig að það sleppi nú örugglega enginn í gegn. Ég held að eins og undanfarin tvö ár ættum við að horfa á almennari, opnari reglur og reyna að einfalda rekstrarskilyrði fyrirtækja eins og nokkur kostur er. Ef einhvern tíma er ástæða til þess þá er það núna þegar fyrirtækin þurfa að geta sett fjármuni sína og afl og tíma í það sem skilar tekjum og skiptir máli en ekki í slag við kerfið. Ég held að við eigum að nota þennan tímapunkt núna til að einhenda okkur í það verkefni að einfalda raunverulega rekstrarumhverfi þessara fyrirtækja og fremst í röðinni gætu verið fyrirtæki í veitingarekstri og ferðaþjónustu.