152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

styrkir til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma.

232. mál
[17:44]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem sætt hafa takmörkunum á opnunartíma. Hér erum við að bregðast við þeirri stöðu sem við höfum staðið frammi fyrir allt of lengi, má segja, að ýmis fyrirtæki í okkar samfélagi hafa þurft að sæta takmörkunum vegna þess faraldurs sem hefur geisað um heim allan. Við, eins og aðrir, fengum til okkar nýtt veiruafbrigði, ómíkron, í upphafi nóvember sem breytti stöðunni umtalsvert bara af þeirri ástæðu einni að menn vissu ekki hvað væri í vændum eða hvaða áhrif þetta afbrigði hefði á fólk og þar af leiðandi á spítalann hjá okkur. En ég held að það sjáist nú á viðbrögðum stjórnvalda að áhrifin af ómíkron-afbrigðinu eru kannski ekki eins alvarleg og af fyrri afbrigðum og hægt og bítandi erum við að sjá ljós við enda ganganna og opna samfélagið hjá okkur meira. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að nauðsynlegt er að bregðast við og styðja þá aðila sem hefur verið gert að loka eða verið með starfsemi sína undir íþyngjandi takmörkunum. Þetta mál er liður í því.

Ég er algerlega sammála þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað á undan mér að málið hefur fengið góða umfjöllun í nefndinni og kemur betur út eftir umræðu og samráð við bæði þá sem starfa í þessum rekstri og aðra hagaðila. Hins vegar hefur það komið mjög skýrt fram hjá þeim sem hér stendur að það er ákveðinn hópur sem hefur fallið á milli og er að falla á milli skips og bryggju í þessu máli hjá okkur. Auðvitað er staðreyndin sú að það er ekki hægt að grípa alla. En ég held að það eigi að vera verkefni okkar að reyna að grípa sem flesta og ná til þeirra. Ég hef verulegar áhyggjur af þeim aðilum sem hefur verið gert að loka sinni starfsemi algerlega og hafa þar af leiðandi ekki haft neinar tekjur en eru jafnframt með fastan rekstrarkostnað, eins og ég hef áður farið yfir. Það eru leigusamningar, hiti og rafmagn, það eru ýmis leyfisgjöld sem hverfa ekki þrátt fyrir að engar tekjur komi inn. Ég segi þetta vegna þess að viðmiðin hafa öll verið í átt að stöðugildum. Ég hef allan skilning á því að það sé mikilvægt að hafa flæði í þessu hjá okkur til að hafa þetta skilvirkt og einfalt og með það að markmiði að fljótlegt sé að afgreiða þær umsóknir sem inn koma. En það breytir ekki þessu með fastan kostnað. Það hefur þekkst annars staðar og í nágrannalöndunum okkar að koma til móts við það. Ég las mér aðeins til og þurfti ekki að leita langt vegna þess að vinir okkar í Danmörku hafa farið þá leið að aðilar geta valið á milli leiða, á milli ýmissa úrræða, og þar með talið að fá greiddan ákveðinn hluta af föstum kostnaði ásamt yfirlýsingu endurskoðanda.

En gott og vel. Þetta er hið besta mál sem við erum með fyrir framan okkur, en það eru fleiri mál sem við þurfum að taka til umfjöllunar hjá nefndinni og það eru lokunarstyrkirnir. Þá kemur kannski að þeim stöðum sem ég hef haft hvað mestar áhyggjur af, þessum litlu stöðum sem hafa þurft að loka fyrir allt og hafa jafnvel þurft, því miður, að hagræða varðandi starfsfólk. Lítil fjölskyldurekin fyrirtæki sem eru í ábyrgð fyrir öllum sínum rekstri. Ég held að við þurfum og okkur beri skylda til þess í umfjöllun nefndarinnar að skoða mjög gaumgæfilega hvort það sé einhver flötur á því og einhver möguleiki á að bregðast við þeirri stöðu sem þessi fyrirtæki standa frammi fyrir. Ástæðan fyrir því að ég nefni þessi litlu fyrirtæki er einfaldlega sú að þrátt fyrir að þetta hafi haft veruleg áhrif á starfsemi veitingastaða og annarra þá held ég að það sé samt sem áður skilningur á því að þessir, með leyfi forseta, „sit down“-veitingastaðir hafi haft möguleika og svigrúm til að taka á móti nokkrum fjölda gesta þrátt fyrir takmarkanir og þar af leiðandi haft meiri burði til þess að vera með starfsfólk hjá sér í starfi. Ég tel að þetta frumvarp sem við erum með til umfjöllunar grípi mjög vel, þó ekki að öllu leyti, þá aðila. Ég biðla því til okkar og félaga minna, hv. þingmanna í efnahags- og viðskiptanefnd, að við skoðum hinn hópinn í umfjöllun um lokunarstyrki og sjáum hvort einhver flötur sé á að grípa fleiri þrátt fyrir að ég held að við séum öll meðvituð um að við munum aldrei grípa alla. Þetta mál sem við ræðum hér í dag er að mörgu leyti mjög gott og við tókum tillit til nokkurra athugasemda og umsagna sem nefndinni bárust sem gerði það að verkum að við erum hér með í höndunum gott mál.