152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[17:57]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Dómar Félagsdóms eru endanlegir, eins og hv. þingmaður kom inn á. Með þeim dómi sem hv. þingmaður nefnir er viðurkennt að ákvæði kjarasamnings var ekki fylgt. Þetta er því dómur sem byggist á ákveðnu ákvæði í kjarasamningi Flugfreyjufélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins eða Icelandair. Það er í raun hlutverk Félagsdóms að taka fyrir þær deilur sem snerust um þetta kjarasamningsbundna ákvæði. Þeir aðilar sem talið er ljóst að brotið hafi verið á hvað varðar þetta kjarasamningsbundna atriði hafa þá væntanlega tækifæri til að leita réttar síns með einum eða öðrum hætti gagnvart dómstólum, myndi ég telja. En kannski verður reynt að leysa mál með öðrum hætti, ég veit það ekki. En það er aðilanna að skoða hvort þeir geti náð einhverri niðurstöðu því að dómurinn er mjög skýr hvað það varðar að þarna hafi verið um kjarasamningsbrot að ræða.