152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

stéttarfélög og vinnudeilur.

272. mál
[18:10]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Meðal annars var litið til Norðurlandanna, þegar verið var að reyna að meta þetta með tímabundnar og ótímabundnar skipanir, og í Noregi er þetta gert til þriggja ára hjá aðilum vinnumarkaðarins. Varðandi það hverjir voru í nefndinni þá voru í henni þeir aðilar sem í dag tilnefna dómara í Félagsdóm, þ.e. frá ASÍ og SA. Hér eru ákveðin álitamál uppi sem þessi nefnd tók afstöðu til og komst að þessari niðurstöðu. Sjálfur hef ég lesið umsagnir sem komu frá Lögmannafélaginu m.a. og ég skil alveg þá afstöðu sem þar kemur fram og held að þetta sé kannski mjög gott mál fyrir þingnefndina til að kalla til sín mismunandi sérfræðinga. Einnig var leitað til prófessors í lögfræði við samningu frumvarpsins þannig að farið var víðar en bara til aðila innan nefndarinnar. Og þetta var niðurstaðan. Ég held að það sé hið besta mál að þingnefndin taki á þessu núna, kalli til sín gesti með mismunandi sjónarmið og við ræðum þetta síðan í framhaldinu.