152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

skaðabótalög.

233. mál
[18:29]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefni einmitt lagaákvæðin sem þarna eru undir því ef markmiðið er að ná til allra þeirra tilvika þar sem um er að ræða ofbeldi í nánu sambandi þá er þetta kannski eitthvað sem mætti rýna við meðferð málsins, einmitt vegna þess að þarna hafa orðið til, að manni sýnist, einhver viðmið af hálfu dómstóla um hvað falli þarna undir. Ég er hv. þingmanni hjartanlega sammála um það og var þeirrar skoðunar líka þegar ég var í mínu fyrra starfi að þetta var ekki ætlun löggjafans, mér sýnist það ekki. Þegar maður les greinargerðina er ætlun löggjafans sú að ramma inn og taka sérstaklega utan um þessi brot og í greinargerðinni er ákveðin umræða um það til hvers sé verið að horfa þar. Ég held að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að skilgreina parasamband svo þröngt að þar þurfi að vera um skráða sambúð að ræða því að þá getum við líka skoðað alls konar félagslegar breytur og aðstæður; húsnæðismarkaðinn í dag, ungt fólk býr lengur í foreldrahúsum t.d., er ekki skráð í sambúð, býr kannski í kjallaranum heima hjá mömmu og pabba eða í herbergi þar en er búið að vera í sambandi og samskiptum árum saman, er augljóslega í parasambandi. Ég held að þetta sé eitthvað sem þurfi að hafa í huga á meðan staðan er þessi varðandi þetta ákvæði. Þó að frumvarpið nái náttúrlega vel utan um þessi mál er þetta kannski eitthvað sem mætti rýna.