152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

34. mál
[18:44]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Það er mér mikill heiður og sómi að standa hér og mæla fyrir þessu lífsnauðsynlega frumvarpi fyrir alla þá sem þurfa að nýta sér aðstoð vegna örorku og sjúkleika. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með mér á þingmálinu er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins. Það er gaman að segja frá því að ég sagði þetta nú gjarnan fyrir síðustu kosningar og þá vorum við venjulega tvö, ég og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson. Nú hefur okkur bæst öflugur liðsauki. Sexmenningarnir eru allir á frumvarpinu: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas Andrés Tómasson.

Í frumvarpinu segir í 1. gr.:

„Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur lagagildi á Íslandi. Samningurinn um réttindi fatlaðs fólks er birtur sem fylgiskjal með lögum þessum.“

Og 2. gr. hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Fatlað fólk hefur ávallt þurft að berjast fyrir sjálfsögðum mannréttindum. Það er ekki aðeins barátta gegn fordómum sem við sem erum fötluð höfum þurft að glíma við heldur einnig barátta gegn ofbeldi og barátta fyrir jafnrétti og sanngjörnum lífsgæðum. Mikið hefur áunnist í þeirri baráttu á undanförnum áratugum, bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Baráttunni er þó ekki nærri lokið. Enn er langt í land og nú er kominn tími til að stíga næsta skref í átt að réttlæti og jafnrétti fyrir fatlað fólk.

Einn mikilvægasti áfanginn í þeirri réttindabaráttu er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Samningurinn hefur það að markmiði að tryggja réttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra eins og kostur er. Í samningnum er fjallað um þau réttindi sem aðildarríkjum ber að tryggja fötluðu fólki og með hvaða hætti þau skuli tryggð.

Ísland undirritaði samninginn strax á upphafsdegi hans, 30. mars 2007. Undirritun alþjóðasamninga er almennt aðeins ákveðin viljayfirlýsing en fullgilding felur í sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að uppfylla þær skyldur og tryggja þau réttindi sem alþjóðasamningar kveða á um. Strax í kjölfar undirritunar samningsins hófst barátta fyrir því að fá samninginn fullgiltan af Íslands hálfu og hefur hún staðið yfir alla tíð síðan. Árið 2016 samþykkti Alþingi loks að heimila ríkisstjórninni að fullgilda samninginn. Hann var í kjölfarið fullgiltur 6. desember 2016 og birtur í C-deild Stjórnartíðinda 29. júní 2017.

Tvíeðliskenningin ræður ríkjum á Íslandi. Í henni felst að alþjóðasamningar sem Ísland er aðili að hafa ekki bein réttaráhrif. Til þess að alþjóðasamningar hafi bein réttaráhrif þarf að lögfesta þá. Lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks yrði mikil og ómetanleg réttarbót og myndi tryggja með lögum þau réttindi sem samningurinn kveður á um. Þess vegna hefur ítrekað verið kallað eftir því af hálfu Öryrkjabandalags Íslands, Þroskahjálpar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og af hálfu almennings að Alþingi stígi fram og lögfesti samninginn.

Árið 2019 samþykkti Alþingi tillögu um að fela ríkisstjórninni að undirbúa lögfestingu samningsins og leggja fram frumvarp þar um eigi síðar en 13. desember 2020. Í kjölfarið var ákveðið að þýða samninginn að nýju. Ný þýðing var loks lögð fram í mars 2021 og samþykkt á Alþingi í maí sama ár. Nú á aðeins eftir að ganga formlega frá lögfestingunni. Ekki er seinna vænna, enda er sá frestur sem ályktun Alþingis lagði til löngu liðinn. Í frumvarpinu er því lagt til að veita samningnum lagagildi á grundvelli þeirrar þýðingar sem samþykkt var á Alþingi 11. maí 2021.

Alþingi samþykkti einróma þingsályktunartillögu um fullgildingu samningsins, um lögfestingu samningsins og um nýja þýðingu á samningnum. Nú er kominn tími til að lögfesta samninginn og tryggja þá réttarvernd sem fatlað fólk á skilið.

Virðulegi forseti. Mig langar til að tala hér um helstu réttindi sem samningurinn stendur vörð um. Ég nefni þar bann við mismunun í 6. gr. Skyldi ég sem öryrki, lögblind kona, einhvern tímann hafa upplifað mismunun í uppvexti mínum á Íslandi? Skyldi ég hafa orðið vör við þá mismunun sem við, sem höfum virkilega þurft að þola slíkt, teljum að sé algerlega augljós, og flestir fatlaðir, ef ekki allir, þurfa að ganga í gegnum einhvern tíma á ævi sinni? Við segjum: Er ekki nóg, virðulegi forseti, að vera svo óheppinn að vera fatlaður? Er ekki nóg að vera svo óheppinn að búa við þær hömlur sem fötlun felur í sér þó svo að samfélagið okkar mismuni okkur ekki líka og heykist við að tryggja þau grundvallarmannréttindi sem okkur eiga að vera tryggð? Jú, mismununin var algjör. Það skipti ekki máli hvort það var í skólakerfinu eða í bankanum þar sem það stóð á spjöldum hvar ég væri í röðinni, það skipti engu máli. Maður keyrði alls staðar á vegg. Það var mitt sjónleysi sem olli því, það var mín fötlun sem olli því. Það gleymdist eiginlega alveg að til væri mjög sjónskert og jafnvel blint fólk í samfélaginu.

Mig langar líka að tala aðeins um 9. gr., um aðgengi. Hvernig skyldi aðgengi vera fyrir fólk í hjólastól, jafnvel í stjórnsýslunni sjálfri, jafnvel í Stjórnarráðinu, hjá umboðsmanni Alþingis, hvar sem er? Aðgengið er síðasta sort; í verslanir, á viðburði, hvar sem við drepum niður fæti í samfélaginu er aðgengi til háborinnar skammar. Réttur til lífs í 10. gr.; jöfn viðurkenning fyrir lögum í 12. gr.; frelsi og öryggi einstaklingsins í 14. gr.; frelsi frá pyndingum eða grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í 15. gr.; frelsi frá misnotkun í gróðaskyni; frá ofbeldi og misþyrmingum í 16. gr.; verndun friðhelgi einkalífs í 17. gr.; ferðafrelsi og ríkisfang í 18. gr.; að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélaginu í 19. gr. — það fær mig til að segja það sem ég var að vísa til í gær í störfum þingsins: Að hugsa sér fólk sem missir heilsuna, fær heilablóðfall, eins og ungi maðurinn sem ég talaði um hér í gær og er kominn í hjólastól, fjölskyldufaðir sem var í góðri vinnu með fínar tekjur — hvert er hans hlutskipti í dag? Hvað segir sveitarfélagið sem hann býr í í dag þegar hann óskar eftir því að fá búsetuúrræði sem hentar honum og hans fötlun til þess að hann geti lifað sjálfstæðu lífi með reisn miðað við þá fötlun sem hann þarf að glíma við í dag? Nei, segir sveitarfélagið, þú ert bara búinn að vera með lögheimili hér í þrjá mánuði. Þú þarft að hafa haft lögheimili hér í alla vega sex mánuði til að við getum skoðað málið þitt. Hann á eiginlega hvergi heima. Það vísar hver á annan, eins og hann segir sjálfur, hann keyrir alltaf á nýjan og nýjan vegg.

Ég ætla ekki að fara frekar í greinarnar en þær eru um heilbrigði, menntun — 24. gr. er um menntun. Skyldi fötluðu fólki vera mismunað í menntakerfinu? Þótt margt hafi breyst til batnaðar á seinni árum hefur þetta verið þrautin þyngri. Þar tala ég af reynslu. Hversu oft lá ekki draumurinn þangað og mig langaði til að mennta mig. Hversu oft varð ég frá að hverfa og viðurkenna vanmátt minn af því að ég sá ekki nógu vel, af því að það voru engin úrræði fyrir mig? Ég þurfti bara að fara heim og bíða. Í sambandi við heilbrigðisþjónustu, hversu mörgum öryrkjum, hversu mörgu fötluðu fólki, eru tryggð þau réttindi að geta leitað sér heilbrigðisþjónustu og haft efni á því; haft efni á að fara til tannlæknis, haft efni á því að borga lyfin sín, haft efni á því að lifa mannsæmandi lífi í samfélaginu? Þúsundir Íslendinga, þúsundir fatlaðra og öryrkja, eiga um sárt að binda. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks tryggir þessu fólki aðgengi að samfélaginu til jafns á við alla aðra eins og kostur er með tilliti til fötlunar þeirra.

Nú hefur ríkisstjórnin sett það á dagskrá að hún vilji sannarlega líta á samninginn og við erum í góðri trú um að utan um hann verði tekið því að við gerum ekkert án samþykkis ríkisstjórnarinnar. Meiri hluti Alþingis verður að taka utan um málið og koma því í gegnum þingið. Viljinn var skýr. Viljayfirlýsingarnar voru skýrar. Við erum búin að fullgilda samninginn og nú á bara eftir að lögfesta hann. Samt sem áður sjást þess ekki nokkur merki að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sé á borðum ríkisstjórnarinnar, ekki þetta árið að minnsta kosti. Eðli málsins samkvæmt vill maður ekki trúa því að það eigi að draga þetta þangað til að 5 mínútur eru í næstu kosningar.

Virðulegi forseti. Það er ekki eftir neinu að bíða. Þetta er mannréttindamál. Það er gæska sem felst í því að taka utan um okkar minnstu bræður og systur og gera þeim lífið eins bærilegt og kostur er. Og ef það er í okkar valdi hér, hv. þingmanna og hæstv. ráðherra, löggjafarvaldsins, þá eigum við skilyrðislaust að gera það. Til þess erum við kosin hér. Við eigum líka að geta horfst í augu við okkur sjálf á hverjum morgni í speglinum, stolt yfir þeim verkum sem við höfum verið að vinna og stolt yfir því að við erum með stórt hjarta og við viljum vinna fyrir alla, ekki bara suma.

Virðulegi forseti. Ég segi bara: Áfram veginn. Áfram veginn til góðra verka. Ég vísa þessu góða frumvarpi til hv. velferðarnefndar.