152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

34. mál
[18:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það er mikil ánægja að við skulum vera að mæla fyrir þessu frumvarpi fyrir alla þá sem eiga við fötlun að stríða. Á sama tíma eru það gífurleg vonbrigði að ekki skuli vera fyrir löngu búið að lögfesta þennan nauðsynlega samning. Við vitum að ofbeldi gegn fötluðu fólki er ljótur blettur á íslensku samfélagi og lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks mun hindra ofbeldið og þá sérstaklega það ofbeldi sem fatlaðar konur og jafnvel börn hafa orðið fyrir. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að fatlaðar konur eru mun líklegri en aðrar konur til að vera beittar ofbeldi. Þrátt fyrir það og þrátt fyrir að um sé að ræða alvarleg mannréttindabrot er ofbeldi gegn fötluðum konum enn falið og ósýnilegt og sjaldan brugðist við því af hálfu yfirvalda.

Með lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks yrði að bregðast við þessu. Rannsóknir sýna að ofbeldi gegn konum og börnum hefur aukist í Covid-19 faraldrinum einnig á Íslandi. Hér á landi hafa stjórnvöld brugðist við þessu með því að nýta nýja tækni og þróun á vefgátt. Við verðum að hindra ofbeldi og sjá til þess að það verði gert með lögum. Íslenskar sem erlendar rannsóknir leiða í ljós að fatlað fólk er í sérstökum áhættuhópi sem þolendur ofbeldis. Kannanir sýna einnig að meiri líkur eru á að fatlað fólk verði fyrir ofbeldi en þeir sem teljast ófatlaðir. Einkum eru ungar konur sem glíma við fötlun líklegar til að verða fyrir kynferðisofbeldi. Erlendar rannsóknir sýna að börn sem glíma við þroskahömlun eru 4,6 sinnum líklegri en ófötluð börn til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Hvað segir þetta okkur? Ein birtingarmynd ofbeldis gegn fötluðum er sú að Alþingi hefur ekki lögfest samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Fötlun er í eðli sínu hluti mannlegs lífs og enginn veit hver verður næst fyrir tímabundinni eða varanlegri fötlun á lífsleiðinni. Fatlað fólk á Íslandi á rétt á því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur og það strax. Hvers vegna er ríkisstjórnin ekki nú þegar búin að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eins og samþykkt var á Alþingi fyrir tveimur árum síðan?

Það er ofbeldi gagnvart fötluðu fólki að draga lappirnar endalaust í þessum lífsnauðsynlega réttindamáli fatlaðra. En stóra málið er lögfestingin. Það er mál málanna, klárum lögfestinguna þannig að hægt sé að beita þeim lögum, bæði gagnvart stjórnsýslunni og ekki síst fyrir dómstólum, til að verja mannréttindi fatlaðs fólks. Það er enginn á móti þessum samningi en það er einhver innbyggð tregða hjá ríkisstjórninni við að klára málið. Hvers vegna? Stígum skrefið til fulls og þá getum við verið stolt af því að Alþingi hefur lokið með glæsibrag að lögfesta samninginn. Ríkisstjórnin hefur haft nægan tíma til að klára málið og þó að ýmislegt sé í gangi hjá henni má nú fyrr vera. Allt sem þarf er bara pólitískur vilji. Menn hafa dregið lappirnar vegna þess að það þurfti að þýða samninginn. Því er nú lokið. Við höfum orðið vitni að hreppaflutningum fatlaðra einstaklinga á hjúkrunarheimili fyrir aldraða og það ber að stöðva. Svoleiðis mál væri ekki hægt að framkvæma ef búið væri að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna. Þá væri heldur ekki hægt að troða ofan í kok á fötluðum einstaklingum og öryrkjum starfsgetumati sem þeim er ekki þóknanlegt. Það verður að sjá til þess að húsnæðismál fatlaðra einstaklinga verði mannsæmandi. Það er hægt að gera kröfu um það þegar búið verður að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um fatlaða einstaklinga.

Í samningnum er ákvæði sem myndi líka þýða það að jafnrétti gildi um fatlað fólk og bann við mismunun. Sérstaklega þurfum við, eins og ég hef áður sagt og ítreka, að taka utan um fötluð börn. Við þurfum að hugsa vel um öll börn en fötluð börn eru í sérstakri áhættu.

Þá er komið aðgengismálum. Aðgengismál fatlaðra er í ólestri. Það er verið berjast sem betur fer og það er verið að fara í rétta átt. Því miður virðist vera ákveðin tregða og þá helst hjá opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum, og það er sorglegt. Að það skuli þurfa t.d. að setja í lög um samning Sameinuðu þjóðanna frelsi frá pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, í 15. gr., það er óásættanlegt. Í 16. gr. er ákvæði um frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum. Það segir okkur hversu lífsnauðsynlega þessi samningur þarf að samþykkjast.

Að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélaginu, á það ekki að vera sjálfsagður hlutur? Virðing fyrir heimili og fjölskyldu, menntun, tjáningar- og skoðanafrelsi, aðgangur að upplýsingum, heilbrigði, hæfing og endurhæfing, vinna og starf? Þetta segir okkur svart á hvítu að við þurfum að taka á þessum málum og við þurfum að gera það núna strax. Þess vegna fagna ég þessum samningi og ég vona heitt og innilega að það verði séð til þess núna strax að hann verði lögfestur. Þetta er lítil krafa en risastórt skref fyrir þau sem þurfa að reiða sig á að samningurinn verði lögfestur þannig að þau geti fengið að verja sig og geti þar af leiðandi gert kröfu um að fá að lifa mannsæmandi lífi eins og við öll hin.