152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

34. mál
[19:06]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegur forseti. Hv. þingmenn og kæra þjóð sem horfir á okkur í beinni útsendingu. Ég heiti Tómas, kallaður Tommi, ég er í Flokki fólksins og við látum okkur varða kjör fatlaðra. Fötlun kemur óumbeðin. Það er í flestum tilfellum ekkert hægt að gera annað en að sætta sig við orðinn hlut, sem sagt að læra að lifa upp á nýtt.

Í greinargerð með frumvarpi til laga um lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks stendur m.a., með leyfi forseta:

„Ísland undirritaði samninginn strax á upphafsdegi hans, 30. mars 2007. Undirritun alþjóðasamninga er almennt aðeins viljayfirlýsing en fullgilding felur í sér þjóðréttarlega skuldbindingu til að uppfylla þær skyldur og tryggja þau réttindi sem alþjóðasamningar kveða á um. Strax í kjölfar undirritunar samningsins hófst barátta fyrir því að fá samninginn fullgiltan af Íslands hálfu og hefur hún staðið yfir alla tíð síðan. Árið 2016 samþykkti Alþingi loks að heimila ríkisstjórninni að fullgilda samninginn. Hann var í kjölfarið fullgiltur 6. desember 2016 og birtur í C-deild Stjórnartíðinda 29. júní 2017.

Hér eru þrjú ártöl sem vert er að taka eftir. Árið 2007 er samningurinn undirritaður og svo eftir níu ára baráttu, árið 2016, samþykkti Alþingi loksins að heimila ríkisstjórninni að fullgilda samninginn. Það er tilkynnt um fullgildinguna í Stjórnartíðindum 29. júní 2017. Síðan eru fimm ár og ekki enn þá búið að löggilda hann. Viljinn virðist vera meiri í orði en á borði. Reyndar var samþykkt á Alþingi 2019 tillaga um að fela ríkisstjórninni að undirbúa lögfestingu samþykktar samningsins og leggja fram frumvarp þar um eigi síðar en 13. desember 2020. Fullgilding er í raun aðallega yfirlýsing en ég verð að segja að það fer lítið fyrir viljanum hjá ríkisstjórninni til að veita fötluðum réttinn sem hún segist vilja veita þeim.

Síðan var gerð ný þýðing á samningnum sem samþykkt var á Alþingi í maí 2021. Ég segi: Er ekki kominn tími til að klára löggildingu samningsins sem einhugur er um 15 árum eftir að hann var undirritaður, því að vilji skiptir litlu máli ef aðgerðir fylgja ekki í kjölfarið? Ég vil segja eins og kemur fram í bíómyndinni Purple rain með Prince, þar sem aðalpersónan, stúlka, segir: „Are you gonna do it or are you gonna talk about it?“

Það er kominn tími til þess að tryggja réttarvernd sem fatlað fólk á skilið.