152. löggjafarþing — 32. fundur,  2. feb. 2022.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

34. mál
[19:09]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Kæru hv. þingmenn. Ég vil þakka flutningsmanni og þeim sem hér hafa tekið til máls á þessum fallegu nótum sem auðvitað eru innfluttar. Þeim hefur verið fyrir mælt af sjálfum Sameinuðu þjóðunum þar sem við höfum átt fastafulltrúa frá árinu 1947, fyrstan Thor Thors Jensen héðan af Fríkirkjuvegi 11, þeim hinum sama og átti ríkan þátt í stofnun Ísraelsríkis ásamt þeim sem þar réðu lögum og lofum á þeim tíma.

Ísland var numið og byggt í anda kærleika og samfélagsábyrgðar. Þannig var nú sá andi sem hér ríkti að menn hjálpuðu þeim sem þurftu á hjálp að halda þó að þeir væru með sveðjurnar á lofti þegar svo bar undir og tækjust á um eignir og lönd sem leiddi til þess að við misstum sjálfstæðið í hendur Noregskonungs á miðri 13. öld. En samhjálpin er okkur í blóð borin. Hún er í genunum í okkur og við höfum náð ýmsum áföngum á þeim vettvangi og getum verið stolt af mörgu í okkar velferðarkerfi. En hér er á ferðinni mál sem við ættum að vera löngu búin að lögfesta og viðurkenna að engan veginn er sæmandi að við skulum reka lestina af Evrópuþjóðum í þessum efnum. Það sem kann að hafa tafið málið — sem fyrst kom inn í þingsali skömmu fyrir hrunið mikla 2008 — kann að vera sú efnahagslega skuldbinding sem felst í því að lögfesta þetta í eitt skipti fyrir öll og þá kannski aðgengismál, aðgengi að opinberum byggingum og stöðum sem hinir fötluðu þurfa greiðlega að komast að.

Nú vill svo til að einn maður í hjólastól, Haraldur Þorleifsson, sem efnaðist af útsjónarsemi og framsækni andans, hefur hafið verkefni sem hófst á síðasta ári og var það að rampa upp Reykjavík. 100 rampar voru boðaðir og verkefnið gekk hratt og vel fyrir sig. Allir vildu vera með, ráðherra félagsmála, forsætisráðherra Íslands, borgarstjórnin í Reykjavík og fjöldi fyrirtækja lögðu gjörva hönd á plóg og ramparnir 100 voru komnir og fullkláraðir löngu áður en til stóð. Þá var boðað nýtt fagnaðarerindi um 1.000 rampa og það verkefni er hafið. Hinu háa Alþingi og hinum nokkuð þokkalega stæða ríkissjóði Íslands hefur hér borist algjörlega óvænt hjálp frá einum frumkvöðli sem hefur safnað liði til þess einmitt að rampa upp Ísland. 1.000 rampar um allt land á næstu mánuðum og misserum þannig að sá þáttur málsins ætti ekki að vefjast fyrir einum né neinum.

Aðrar skuldbindingar fjárhagslegar sem kynnu að hanga á spýtunni eru ekki af þeirri stærðargráðu að það ætti að fresta einu né neinu. Nú tala ég bara beint frá þeirri eðlisávísun sem guð gaf mér og þeirri, við skulum segja, tilfinningu sem ég hef, að um leið og við óskum þess heitt og innilega að þessi fullnusta og lögfesting muni eiga sér stað þá segir mér svo hugur að það muni eftir ganga á þessu kjörtímabili farsællega og þá á fyrri hluta þess frekar en hinum síðari. Megi sú ósk rætast og verða okkur öllum til gleði og sóma.