152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

biðlistar í heilbrigðiskerfinu.

[10:43]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra svarið. Það er auðvitað alveg frábært ef það verður hægt að sjá til þess að fólk þurfi ekki að dveljast lengur á biðlistum. En síðan er það lífið eftir biðlistana. Hvað tekur þá við? Það á eftir að semja við sérgreinalækna og það á líka eftir að semja við sjúkraþjálfara. Sjúkraþjálfarakostnaður er orðinn það mikill og fólk þarf að borga úr eigin vasa svo að stór hópur öryrkja og eldri borgara hefur ekki efni á því lengur að fara í sjúkraþjálfun. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvað erum við að gera í þeim málum? Ætlar hann að sjá til þess núna í eitt skipti fyrir öll að semja við sjúkraþjálfara? Ríkisstjórnin hefur hælt sér af því að vera með svo til gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu á heilsugæslum en hún hefur bara fært þennan kostnað yfir á sjúkraþjálfun, yfir á sérgreinalækna. Þar er kostnaðurinn kominn upp úr öllu valdi og fólk hefur ekki efni á þessu. Hvað ætlar heilbrigðisráðherra að gera í því?