152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sala raforku til þrautavara.

[10:55]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég held að stutta svarið við þessari fyrirspurn sé einfaldlega það að sú reglugerð sem þarna var sett fram var örugglega ekki gerð af illum hug. Hins vegar liggur það alveg fyrir, út af þeim aðstæðum sem hv. þingmaður vísar til, að við erum að skoða þessi mál. Það sem við viljum auðvitað er að heimilin í landinu fái bæði örugga og góða orku á eins hagstæðum kjörum og mögulegt er. Það er markmiðið. Það er hins vegar, eins og hv. þingmaður veit og hann nefnir hér, eitt mál og það eru fleiri mál sem hafa sannarlega verið áberandi, og ég ræddi alveg sérstaklega í hv. atvinnuveganefnd í morgun, sem eru raforkumálin í það heila út af þeirri stöðu sem upp er komin. Við erum núna að gera hluti sem við ættum alls ekki að gera og eru að færa okkur aftur á bak í okkar loftslagsmarkmiðum, þ.e. að brenna olíu til að skaffa heimilum í landinu raforku.

En það mál sem hv. þingmaður vísaði til er annað mál sem við höfum ekki bara augun á heldur erum við sömuleiðis að skoða sérstaklega hver reynslan er af því fyrirkomulagi sem er núna og hvernig við getum lagað það sem miður fer. Ég bara þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessum málum vegna þess að það er mjög mikilvægt að við vöndum hér til verka. Það verður mikið að gera, virðulegi forseti, í raforkumálum núna á næstu mánuðum og misserum.