152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

yfirvofandi orkuskortur.

[11:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það blasir við okkur ákveðinn vandi, tvöfaldur vandi. Það er annars vegar núverandi vandi og svo í náinni framtíð. Það er orkuskortur yfirvofandi í náinni framtíð, eins og forstjóri Landsvirkjunar orðar það. Það er tiltölulega óljóst hversu náin sú framtíð er. Við vitum það alveg miðað við þær sviðsmyndir sem hafa verið settar upp að það þarf meiri orku í orkuskiptin. Það kemur ekkert á óvart við það. En vandinn í dag er það sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um, þessi skilaboð um að það þurfi að fara að brenna olíu, eins og hæstv. ráðherra orðaði það í andsvari áðan í óundirbúnum fyrirspurnum, brenna olíu til að skaffa heimilum í landinu raforku. Nú langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra og vitna hérna í þriðja orkupakkann, en ein besta greinin þar og ein af ástæðunum fyrir því að það er bara mjög góður pakki er þessi, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu tryggja að viðskiptavinir sem kaupa til heimilisnota og eftir því sem aðildarríkin telja rétt, lítil fyrirtæki, eigi rétt á að fá afhenta raforku af tilteknum gæðum á verði sem er greinilega samanburðarhæft, gagnsætt og sanngjarnt.“

Það eru tvö atriði þarna helst, tiltekin gæði og sanngirni. Ég velti því fyrir mér: Ef skilaboðin sem við fáum núna í fjölmiðlum eru að það þurfi að brenna olíu til að útvega heimilum raforku, er það þá af þeim gæðum sem stjórnvöld telja að séu ásættanleg? Og er það sanngjarnt þegar það er verið að segja á sama tíma að þetta leiði til þess að kostnaður almennt séð við aðra orku verði hærri fyrir heimilin? Ef ekki, hvað á þá að gera í þessu núna?