152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

búvörulög og búnaðarlög.

118. mál
[15:06]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kenning Viðreisnar er ósköp einföld, að trúa og treysta á samkeppni, trúa svolítið á frelsið, trúa á hyggjuvit bænda þegar þeir fá styrki, hvert þeir vilja fara. Ef þeir vilja fara í að ræsa fram votlendi sem hefur verið raskað og fá til þess kolefnisjöfnun, geta lagt það inn, ef þeir kjósa það, af hverju á að banna það? Ef þeir vilja fara í eitthvað annað, aðra jarðrækt, repjurækt, kornrækt, byggja upp kornhlöður, ef þeir kjósa það, af hverju ekki að leyfa þeim það? En í dag eru þeir í vistarböndum gamals kerfis framsóknarflokka sögunnar í gegnum tíðina. Ég get alveg tekið það til umhugsunar að breyta nafni mínu á flokkunum í ríkisstjórn sem mér finnst allir hafa verið einn framsóknarflokkur en hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur mikið til síns máls þegar hann kallar þá afturhaldsflokka. Ég held að það sé ágætis viðurnefni miðað við gjörðir þeirra fram til þessa.

Hv. þingmaður nefndi Noreg. Við vorum í utanríkismálanefnd núna í vikunni að fara yfir fríverslun við Breta, nýjan fríverslunarsamning. Tekin var pólitísk ákvörðun um það hér heima að fá ekki jafn mikinn aðgang fyrir unnar íslenskar sjávarafurðir, aðeins meiri en nú er en ekki jafn mikinn og við gætum, af því að það var ekki hægt að slaka til í landbúnaði. Það mátti ekki opna landið meira fyrir landbúnaðarvörum. Noregur er hins vegar að fara aðra leið. Noregur er að opna meira, Norðmenn eru að fá meiri aðgang, þeir eru að fá meira í þeim viðskiptum af því að þeir ætla að opna meira fyrir aðgang að landbúnaðarvörum. Þeir treysta norskum bændum. Ég hef enn trú á þessu miðað við þá þróun sem hefur orðið, þá agnarlitlu en samt merkilegu tilraunastarfsemi þar sem við höfum séð samkeppninni hleypt inn (Forseti hringir.) og það er á sviði grænmetisræktunar eins og ég gat um áðan. Það hefur gefið góða raun. (Forseti hringir.) Hvað gerðist þegar við opnuðum fyrir grænmetið? Íslensk grænmetisframleiðsla jókst til að byrja með, hún jókst. (Forseti hringir.) Hún minnkaði ekki.