152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

búvörulög og búnaðarlög.

118. mál
[15:41]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Að því sem hv. þingmaður vék að í andsvarinu. Ég vil fyrst nefna að þó að einhverjar tilteknar atvinnugreinar njóti stuðnings annars staðar, hvort sem það er í einstökum löndum eða í einhverju ríkjasambandi eða innan Evrópusambandsins eða hvað það er, þá réttlætir slæmt fyrirkomulag á einum stað það ekkert endilega á öðrum stað. Ég er almennt þeirrar skoðunar að það eigi að fara varlega í að vera með tolla og beinar niðurgreiðslur. Hvar tilteknar upphæðir í þessu liggja ætla ég ekkert að úttala mig um hér. Það sem ég er að reyna hérna, og er ástæðan fyrir því að ég er á þessu máli, er að styðja stóru myndina í þessu. Ég er að styðja það að hægt og bítandi komum við okkur út úr miðstýrðu kerfi, komum okkur út úr því að hugsa: Ef við gerum þetta, hvað þarf þá að færa til mikla fjármuni hér? Þetta verði bara á þeim forsendum að menn séu frjálsir að því að framleiða og selja eins og þeir vilja. Eftir atvikum munu sumir ekki standast þá samkeppni á meðan aðrir munu þrífast og þar fram eftir götunum. Það er það eina sem ég er að tala um. Ég er ekki til þess bær að geta nefnt nákvæmlega einhverjar upphæðir til eða frá í því samhengi. Mér finnst einmitt umræðan um þessi mál alltaf týnast í því, hvað sé hægt að gera til skemmri tíma ef þetta breytist, hvernig sé þá hægt að bregðast við og allt þetta. Ég vil bara að þetta sé lífrænt kerfi þar sem sömu lögmál gilda og í öðrum atvinnurekstri og það er vel hægt. Við þurfum bara að venjast tilhugsuninni um það.